Segist aldrei hafa átt Kredia

Ef farið er inn á vefinn smalan.is er notandi strax áframsendur á vefinn smalan.dk. Þar er allt á íslensku en þjónustan er skráð í eigu fyrirtækis í Danmörku; eCommerce 2020.

Fjallað er um smálán í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í kvöld. Alþingi samþykkti lög um neytendalán fyrir sex árum sem gerði smálánafyrirtækjum flóknara að halda starfsemi óbreyttri hér á landi og fóru þau á hausinn, eitt af öðru.

Þau risu hins vegar upp frá dauðum en í dag er eitt fyrirtæki á bak við þau öll.

Þegar Kveikur ætlaði sér að heimsækja skrifstofur eCommerce 2020 í Kaupmannahöfn kom í ljós að þar var enginn starfsmaður. Starfsfólk í móttöku staðfesti að fyrritækið væri skráð þar en það hafði aldrei séð starfsmann.

Fyrirtækið eCommerce 2020 er dótturfyrirtæki Kredia en opinberir eigendur þess er Tékkar, í gegnum félög í Evrópu. Í Tékklandi finnur Kveikur mann sem skráður er forstjóri Kredia. 

Sá maður kemur af fjöllum þegar spurt er um fyrirtækið og segist aldrei hafa átt það. Hann neitar því að svara hvort fyrrverandi eigendur smálánafyrirtækja á Íslandi séu viðriðnir reksturinn.

Fyrirtækið sem sér um innheimtu fyrir eCommerce 2020 hérlendis heitir í dag Almenn innheimta. Þar starfa fimm starfsmenn í ómerktu húsnæði á Siglufirði. Gísli Kr. Björnsson lögmaður er skráður eigandi þess en hann neitaði viðtali.

Fram kom á ráðstefnu um ungt fólk og lánamarkaðinn í lok mars að 27,3% þeirra sem leituðu aðstoðar hjá embætti umboðsmanns skuld­ara í fyrra voru á aldr­in­um 18-29 ára.

Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, sagði að helsta ástæðan fyrir þessu væru smálán. „Við vilj­um breikka hug­takið úr smá­lán­um,“ seg­ir hún. „Smá­lán er ekk­ert smá lán. Það er bara stórt lán.“

Umfjöllun Kveiks má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert