ALC aðeins hótað löglegum aðgerðum

Oddur Ástráðsson, lögmaður bandaríska flugvélaleigusalans ALC.
Oddur Ástráðsson, lögmaður bandaríska flugvélaleigusalans ALC. mbl.is/Kristinn Magnússon

Oddur Ástráðsson, lögmaður bandaríska flugvélaleigusalans Air Lease Corporation (ALC), segir forsvarsmenn félagsins ekki hafa hótað neinu ólöglegu í tengslum við deilu félagsins við Isavia um kyrrsetningu flugvélarinnar, Air­bus A321 TF-GPA, eftir gjaldþrot WOW air fyrir um mánuði síðan.

Í frétt Fréttablaðsins í dag kom m.a. fram að „dulbúnar hótanir um búsifjar íslenskra flugfélaga og annarra íslenskra fyrirtækja sem selja ferðir til og frá Bandaríkjunum“ væru meðal þeirra meðala sem beitt væri í deilum ALC og Isavia. Þá væru erindrekar félagsins sagðir gefa stjórnendum Isavia til kynna að spjótum kynni að verða beint að þeim persónulega vegna málsins.

Málflutningur í málinu fer fram á morgun í Héraðsdómi Reykjaness.

„Erfitt að hafna einhverju sem maður veit ekki hvað er“

„Það er erfitt að hafna einhverju sem maður veit ekki hvað er eða á að vera,“ segir Oddur spurður út í efnisatriði fréttarinnar og vísar til yfirlýsingar ALC frá því í lok apríl.

„Þar kemur fram að ALC muni leita allra leiða til að fá hnekkt þessari ákvörðun Isavia, fá endurheimt eign sína og leita liðsinnis hverra þeirra stofnana sem að málinu koma. Þar er vísað til stjórnvalda Bandaríkjanna og stofnana ESB meðal annars. Einnig kemur fram að málið hafi þegar valdið Íslandi og íslenskum stjórnvöldum álitshnekki og fyrirtæki í flugiðnaði fylgist af áhuga með framvindunni. Þetta eru staðreyndir,“ segir Oddur og nefnir til viðbótar að forstjóri Icelandair hafi lýst yfir áhyggjum af því að framganga Isavia valdi fjármögnunarvanda fyrir íslensk flugfélög og vanda við að fá flugvélar á leigu.

„Kannski gæti einhver túlkað þessar staðreyndir sem dulbúnar hótanir. Það sem blasir við er að ef Isavia kemur fram með þeim hætti sem þeir hafa gert í þessu máli, þar sem þeir leyfa einu flugfélagi að safna skuldum vegna notendagjalda í lungann af ári, níu mánuði, undir tryggingum um það að þeir hafi alltaf eina þotu tiltæka sem þeir eiga ekki, þannig Isavia geti rukkað einhvern annan, þá gefur auga leið að leigusalar og ALC horfa til þessa í framtíðinni ef það verður talið standast,“ segir Oddur. Hann segir að Isavia hafi gengið um heimild til kyrrsetningar eins og engin mörk séu á því hve lengi sé hægt að leyfa einu flugfélagi að safna skuldum.

„Hvað ef WOW air hefði verið tvöfalt stærra flugfélag? Hvað ef skuldirnar hefðu varað í lengri tíma? Hvað ef skuldirnar væru ekki tveir milljarðar, heldur fjórir, átta eða tólf? Gæti Isavia þá tekið tvær þotur eða þrjár? Þeirra túlkun og beiting á ákvæðinu er til þess fallin að aðilar í þeirri stöðu sem ALC er í geta ekki treyst því að það sé öruggt að leigja flugvél til Íslands. Það er á þeirra eigin reikning,“ segir hann.

Spurður hvort ALC hafi hótað því að takmarka eða banna leigutökum sínum að beina vélum þess til Keflavíkurflugvallar, kveðst Oddur engar upplýsingar hafa um það. „Ég get hvorki staðfest né neitað því, ég hef engar upplýsingar um það,“ segir hann.

Aðgerðir á viðskiptalegum og lögfræðilegum grundvelli

Oddur segir að ALC sverji ekki af sér það sem fram hefur komið í yfirlýsingum félagsins, sé það sem þar kemur fram þær hótanirnar sem um er rætt í grein Fréttablaðsins. „Ef það sem kemur fram í yfirlýsingu ALC frá 26. apríl sl. eru dulbúnar hótanir, eða sú orðsporsáhætta sem blasir við Isavia ef þeir ætla að halda sig fastir við sinn keip, þá ætlum við ekki að sverja það af okkur. Það er auðvitað ómögulegt að svara einhverju dylgjublaðri. Við vísum til þess sem við höfum áður sagt og ef það eru hinar dulbúnu hótanir, þá göngumst við bara við þeim,“ segir hann.

TF-GPA hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá 18. mars.
TF-GPA hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá 18. mars. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Spurður hvort eitthvað annað í framgöngu ALC en það sem fram kemur í yfirlýsingunni séu hótanir af hálfu félagsins bendir Oddur á að ALC hafi boðað skaðabótamál. „Það er auðvitað hótun í einhverjum skilningi, en hún er ekki sérstaklega dulbúin. Ég hef sagt að við könnum hvort ástæða sé til þess að vísa málinu í lögreglurannsókn vegna ákveðinna atriða. Það beinist þá auðvitað persónulega að einhverjum starfsmönnum Isavia. Ef þeir telja sig ekki hafa gert neitt rangt, þá er ekkert að óttast. Það er ekki mjög dulbúið, en ég myndi ekki nota orðið hótun um það samt,“ segir hann. Þá bendir Oddur á að fyrirgreiðsla Isavia til WOW air teljist að mati ALC til ólöglegrar ríkisaðstoðar sem sé í bága við EES-samninginn. „Við höfum til skoðunar að beina kvörtunum til eftirlitsstofnunar EFTA um það atriði. Ef það er hótun, þá gengst ég við henni,“ segir Oddur.

Eru þær hótanir sem fjallað er um í greininni þá ekki aðrar en hótanir á viðskiptalegum grundvelli?

„Já, þetta eru aðgerðir á viðskiptalegum og lögfræðilegum grundvelli sem menn grípa til við þessar aðstæður. Við munum grípa til allra lögmætra aðgerða til að tryggja að réttindi okkar umbjóðanda séu virt og ekki fyrir borð borin,“ segir hann.

Í grein Fréttablaðsins segir, sem fyrr greinir, að erindrekar ALC séu sagðir hafa gefið stjórnendum Isavia til kynna að spjótum kunni að verða beint að þeim persónulega vegna málsins. „Aftur, það er erfitt að svara fyrir eitthvað sem maður veit ekki hvað á að vera. Það sem aftur á móti kann að beinast að þeim persónulega er ef við látum reyna á það hvort einhver beri refsiábyrgð vegna þessara aðgerða Isavia. Við höfum ekki tekið ákvörðun um það, en það er eitthvað sem er til skoðunar,“ segir Oddur.

Mbl.is leitaði svara hjá Isavia vegna nýjustu vendinga málsins en upplýsingafulltrúinn Guðjón Helgason sagði fyrirtækið ekki ætla að tjá sig um það í fjölmiðlum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert