„Við skulum fagna firringunni“

Sólveig Anna við ræðuhöldin á Ingólfstorgi í dag.
Sólveig Anna við ræðuhöldin á Ingólfstorgi í dag. mbl.is/​Hari

„Forherðingin, firringin sem birtist okkur í vetur er vissulega ósgeðsleg en við skulum samt fagna henni. Þau sem hafa látið sem það væri náttúrulögmál að þau hafi endalaus völd til að ákveða lífsskilyrði okkar, afkomu og aðstæður voru opinberuð sem vanstilltir loddarar,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í ræðu sinni á Ingólfstorgi í tilefni hátíðarhalda 1. maí.

Sólveig Anna sagði þann tíma liðinn að verkalýðsfólki væri aðeins í baráttuhug einu sinni á ári. „Sá tími er liðinn að við látum okkur nægja að bíða og biðja, sá tími er liðinn að við látum okkur nægja að fara bónleið og kreista út þúsundkalla frá auðstéttinni. Við erum hér og þau skulu venjast því, við erum hér og ætlum að krefjast og berjast alla daga ársins.“

mbl.is/​Hari

„Við risum upp í vetur. Við sögðum: Við erum hér og þið skuluð venjast því, við erum hér, við höfum alltaf verið hérna, nú er tími þess að við verðum öll sýnileg runnin upp. Sjáið sýnilegu vinnuhendurnar okkar og sjáið hvað gerist þegar við stingum þeim í vasann. Þau brjáluðust, talsmenn óbreytts ástands, talsmenn algerra yfirráða hinna ríku.“

Fórna ekki lengur tíma og lífi fyrir þjóðfélagið

„Við ætlum ekki lengur að fórna tíma okkar og lífi, okkur sjálfum fyrir þjóðfélag þar sem fámenn yfirstétt greiðir sjálfum sér milljarða í fjármagnstekjur á meðan að fjöldi fólks fær aldrei um frjálst höfuð strokið.“

„Velsæld okkar, raunveruleg velsæld samfélags þar sem þarfir fólks eru ávallt í fyrirrúmi byggir á jöfnuði, á efnahagslegu réttlæti. Jöfnuður býr til samfélag þar sem mannfólk hefur tíma og frelsi, raunverulegt frelsi, til að annast sjálft sig og börnin sín, frelsi til að njóta þeirrar einu tilveru sem okkur er úthlutuð, frelsi til að vaxa og dafna á eigin forsendum. Fyrir þessu ætlum við að berjast, sameinuð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert