Isavia ekki tekið afstöðu til áfrýjunar

Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri ISAVIA, segir lögmenn félagsins enn vera …
Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri ISAVIA, segir lögmenn félagsins enn vera að skoða úrskurð héraðsdóms og að of snemmt sé að tjá sig um það hvort félagið mun áfrýja til Landsréttar. Ljósmynd/ISAVIA

„Úrskurðurinn staðfestir í fyrsta lagi að okkur var heimilt að stöðva flug á grundvelli ógreiddra notendagjalda. Málið snérist að miklu leyti um það hvort að við höfum þá heimild,“ segir Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia ohf., í samtali við mbl.is um úrskurð héraðsdóms í máli bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC gegn Isavia.

Krafðist ALC að flugvél í eigu þeirra sem kyrrsett er á Keflavíkurflugvelli verði losuð og afhent eiganda.

Samkvæmt úrskurðinum var Isavia heimilt að stöðva brottför vélar ALC (sem WOW air var með á leigu) vegna gjalda sem tengjast þessari tilteknu vél en ekki á grundvelli annarra skulda sem WOW stofnaði til vegna annarra véla. Samkvæmt því getur Isavia krafist 87 miljóna króna greiðslu en ekki tveggja milljarða.

Sveinbjörn segir ekki hafa verið tekin ákvörðun um hvort að málinu verði áfrýjað til Landsréttar. „Þetta er 25 blaðsíðna úrskurður og nú erum við að fara yfir þennan úrskurð með okkar lögmönnum. Við höfum ekki komist nægilega langt í þessu til þess að við séum að tjá okkur [um framhaldið] á þessu stígi málsins.“

Hann segir jafnframt að málið hafi ekki áhrif á uppbyggingaráform á Keflavíkurflugvelli og að allar ákvarðanir félagsins vegna WOW hafi verið á forsendum viðskiptalegra hagsmuna Isavia.

Héldu ekki yfirlit yfir skuldum hverrar vélar

Félagið ALC bauð Isavia að halda annarri flugvél vegna ógreiddra gjalda sem Isavia hafnaði. Voru skuldir tengd þeirri vél meiri en á þeirri sem Isavia kyrrsetti?

„Við höldum ekki utan um þær skuldir sem hver og ein flugvél býr til. Það lagaákvæði sem við byggjum á heimilar okkur stöðva flugvél á grundvelli allra notendagjalda [viðkomandi flugrekstraraðila]. Þannig að við kyrrsetjum á grundvelli allra skulda ekki bara per vél.

Stærsta ástæðan fyrir því að við höfnuðum skiptunum á sínum tíma var að við vildum ekki hrófla við lagalegum forsendum stöðvunarinnar. Við vorum að passa að formið væri í samræmi við það sem til var ætlast.“

Þú segir að þið hafi litið svo á að skuldirnar hafi ekki verið reiknaðar á hverja vél, heldur flugrekstraraðilann í heild. Það er í andstöðu við niðurstöðu dómsins og hlýtur að skiljast þannig að þú sért ósammála niðurstöðunni?

„Eins og ég segi eru lögfræðingarnir að lesa sig í gegnum niðurstöðuna og ég hef ekki fengið frá þeim nægilega miklar upplýsingar til þess að við getum tjáð okkur um þetta á þessu stigi málsins.“

Vildi ekki vera hluti af vandanum

Hvernig stóð á því að WOW air fékk heimild til þess að safna svona miklum skuldum hjá Isavia?

„Ef við horfum á atburðarrásina síðastliðið sumar þegar til staðar voru vanskil, þá er WOW air á leið í skuldabréfaútboð og á þeim tímapunkti þá stöndum við frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort við eigum að grípa til þessarar stöðvunar eða ekki. Ef við hefðum gert það á þeim tímapunkti, þá hefði sú aðgerð sett WOW air á hliðina. Þetta er það mikið inngrip að við ákváðum að vera hluti af lausninni en ekki vandanum.“

Nú hefur komið í ljós að þeir sem keyptu skuldabréf í útboðinu töpuðu milljörðum á þeim viðskiptum. Hafið þið íhugað hvort ákvörðun Isavia hafi verið rétt í ljósi þess að hún skilaði ekki árangri?

„Það er aldrei okkar að leggja mat á það hvernig okkar viðskiptavinir fjármagna sig. Það var náttúrulega þannig að þegar WOW air fór í þetta skuldabréfaútboð, átti það að duga félaginu til þess að komast yfir þessa rekstrarerfiðleika. Við fengum bara sömu upplýsingar og allir aðrir að það var stefnt að því.

Svo kemur í ljós örfáum vikum eða mánuðum eftir að svo var ekki og við aftur komin í þá stöðu að þurfa að taka ákvarðanir. Þá kom Icelandair inn og var í mánuð, svo fór Icelandair út og Indigo inn. Við stöndum alltaf frammi fyrir því hvort við eigum að vera þúfan sem veltir hlassinu eða hvort við ætlum að vinna með okkar viðskiptavinum,“ segir Sveinbjörn.

Hagsmunir Isavia

„Þegar við horfum á þetta þá erum við alltaf að horfa á viðskiptalega hagsmuni Keflavíkurvallar og Isavia, því það er það sem við þurfum að hafa að leiðarljósi. Við getum alltaf haft skoðun á því hvort þetta sé há fjárhæð eða ekki há fjárhæð.

Til viðbótar fór WOW air í gegnum mikla fjárhagslega endurskipulagningu í desember, losuðu sig við vélar og sögðu upp fullt af fólki. Þannig að rekstrarmódel WOW var orðið miklu nær því sem var upphaflega áður en við förum inn í árið 2019 og með Indigo á kantinum. Það hafði alveg líkurnar með sér að félagið myndi bjarga sér.

Ekki má heldur gleyma því að líklega var ALC að taka nákvæmlega sömu ákvarðanir og við því WOW air var með margra mánaða vanskil gagnvart ALC.“

Hvaða heimildir hefur Isavia sem opinbert félag til þess að veita eftirgjöf við stök félög vegna hagsmuna viðskiptavinar?

„Þetta snýst um viðskiptalega hagsmuni Isavia, ekki WOW air. Við erum alltaf að horfa til viðskiptalega hagsmuna Isavia í öllu þessu máli. Hvort að fjármögnunaræfingar WOW air gengu upp eða ekki, þá er það samt þannig að fyrir okkur var mikilvægt að WOW air myndi komast í gegnum þetta. Við höfum haft verulegar tekjur af WOW air og þetta var okkar annar stærsti viðskiptavinur.“

„Ekki slæmt að WOW hafi lifað veturinn“

Hefur úrskurðurinn áhrif á uppbyggingaráform Isavia á Keflavíkurflugvelli?

„Ekki þetta mál sem slíkt. Á þeim tíma sem WOW air var að fljúga til og frá Íslandi vorum við að fá verulegar óflugtengdar tekjur í gegnum veitinga- og verslunarrekstur. Þannig að við fengum tekjur til félagsins og eigið fé Isavia er hærra en það hefði verið ef WOW air hefði farið í haust og að því leyti ekki slæmt fyrir okkur að WOW air hafi lifað veturinn.

Hvað varðar uppbyggingu á Keflavíkurvelli þá er annar stærsti viðskiptavinurinn okkar farinn. Árið 2015 þá gáfum við út þróunaráætlun sem byggði á farþegaforsendum sem hafa staðist þó að við tökum alla farþega WOW air út úr tölunum. Þannig á þessu ári, þó svo að við séum að missa farþega WOW air, erum við með fleiri farþega 2019 heldur en þróunaráætlun gerði ráð fyrir.

Við munum þurfa að fara í þessar aðgerðir en munum kannski þurfa að gera það með öðrum hætti. Til dæmis í fleiri minni skrefum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert