„Ísland er gæðavara og mun alltaf vera“

Mikilvægt er að bjóða ferðamönnum gæði fyrir að verð sem …
Mikilvægt er að bjóða ferðamönnum gæði fyrir að verð sem þeir greiða hér á landi. mbl.is/Eggert

„Greinin stendur almennt vel til að taka á móti þessum mótbyr sem nú gengur yfir en þó eru vissulega fyrirtæki sem standa verr en önnur. Eftir svona mikinn vöxt síðustu ár þá er allt í lagi að aðilar setjist aðeins niður og gefi sér tíma til að móta stefnu í ferðaþjónustu til framtíðar,“ segir Kristín Hrönn Guðmundsdóttir, forstöðumaður verslunar og þjónustu hjá Íslandsbanka, í samtali við mbl.is.

Íslandsbanki gaf í dag út nýja skýrslu um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu, áskoranir hennar þessa dagana og rekstararumhverfi fyrirtækja í greininni. Mbl.is ræddi við Kristínu Hrönn ásamt Elvari Orra Hreinssyni, sérfræðing í greiningu hjá Íslandsbanka og höfund skýrslunnar.

Hægari fjölgun ferðamanna komið aftan að aðilum

 „Í skýrslunni er farið yfir rekstarniðurstöður og þær dregnar saman fyrir árið 2017. Þá voru rekstrarskilyrði að mörgu leyti erfið, krónan náði sínum sterkustu gildum og það var fyrsta árið þar sem hægði á fjölgun ferðamanna í núverandi uppsveiflu. Einhverjir voru ef til vill að spýta í lófana , tilbúnir að taka við áframhaldandi hröðum vexti, sem varð svo ekki raunin og gæti það hafa komið aftan að einhverjum,“ segir Elvar Orri.

Þá hafi vaxandi samkeppni og verðþrýstingur í flugrekstri einnig haft áhrif á tekjuvöxt í greininni. Elvar Orri segir tölurnar benda til þess að þessari þróun hafi ekki verið mætt með nógu mikilli kostnaðarhagræðingu á sínum tíma og því hafi rekstrarniðurstöður farið versnandi.

Vinsældir Íslands sem ferðamannastaðar láta ekki á sjá þrátt fyrir …
Vinsældir Íslands sem ferðamannastaðar láta ekki á sjá þrátt fyrir bakslög í ferðaþjónustu. mbl.is/Eggert

Krónan hafi hins vegar veikst talsvert síðan og gjaldþrot WOW air haft mildari áhrif en séð hafði verið fyrir. „Staðan er nokkuð björt og við teljum enga ástæðu til svartsýni til lengri tíma litið. Þetta veltur fyrst og fremst á því hversu vinsæll áfangastaður Ísland er og þrátt fyrir bakslög í hinum og þessum þáttum í greininni, þá er ekki að sjá á vinsældum Íslands sem áfangastaðar,“ segir Elvar Orri.

Mikilvægt að auka verðmæti á hvern ferðamann

Hingað til hefur verðmætaaukning í ferðaþjónustu á Íslandi fyrst og fremst verið drifin áfram af fjölgun ferðamanna. Nú þegar hægir á fjölgun blasir við áskorun við að auka verðmæti á hvern ferðamann til þess að viðhalda verðmætaaukningu í greininni.

„Nú reynir á greinina að horfa meira inn á við,“ segir Elvar Orri og segir stefnumótun mikilvæga í því samhengi. Aðilar þurfi að spyrja sig hvers konar ferðamenn við viljum laða hingað til lands og móta út frá því skýra stefnu og nota markaðssetningu til að herja á betur borgandi ferðamenn.

Kristín Hrönn tekur undir með Elvari Orra. „Komið hefur fram að Ísland er einn af dýrustu áfangastöðum heims, ef ekki sá dýrasti, og það er afar ólíklegt að einhverntíma verði ódýrt að koma hingað.“

Þurfum að bjóða gæði í samræmi við verð

„Í einföldu máli er Ísland gæðavara og mun líklega alltaf vera það og við þurfum að kappkosta við að veita ferðamanninum gæði til samræmis við það háa verð sem hann borgar,“ bætir Elvar Orri við.

Eins og áður segir hafði gjaldþrot WOW air mildari áhrif en spáð hafði verið fyrir um þó endanleg áhrif séu ekki komin fram að fullu og telja Kristín Hrönn og Elvar Orri markaðshlutdeild Icelandair, sem nú er 72%, ekki endilega sérstakt áhyggjuefni. Staðan sé svipuð og hún var áður en WOW air fór að stækka eins og raun bar vitni. Auk þess séu hið minnsta 25 önnur flugfélög sem fljúgi hingað til lands og ferðamenn séu því ekki háðir Icelandair til að komast hingað til lands. „Það er líka þannig að ef áfangastaður er vinsæll og eftirsóttur, þá munu önnur flugfélög grípa inn í það tómarúm sem myndast,“ segir Kristín Hrönn.

Tryggja þarf aukin verðmæti frá þeim ferðamönnum sem hingað koma.
Tryggja þarf aukin verðmæti frá þeim ferðamönnum sem hingað koma. mbl.is/Eggert

Elvar Orri og Kristín Hrönn eru bæði bjartsýn varðandi framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi og að með skýrari stefnumótun og aukinni hagræðingu, svo sem með sameiningu smærri fyrirtækja, séu Íslandi sem áfangastað allir vegir færir.

„Arðsemi greinarinnar hefur verið að minnka, en búast má við því að þetta ár verði einnig erfitt, jafnvel erfiðara en síðustu tvö ár.,“ segir Kristín Hrönn. „En sé rétt spilað úr þeim tækifærum sem atvinnugreinin stendur frammi fyrir ætti rekstrarumhverfi fyrirtækjanna að vera hagfellt til lengri tíma litið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert