Skólaverkföll fá umhverfisviðurkenningu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri með skipuleggjendum loftslagsverkfalla á Íslandi og …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri með skipuleggjendum loftslagsverkfalla á Íslandi og skólaverkfalla fyrir komandi kynslóðir. Hópurinn fékk í dag viðurkenninguna Eldhugar í umhverfismálum. mbl.is/​Hari

Skipuleggjendur loftslagsverkfalla á Íslandi og skólaverkfalla fyrir komandi kynslóðir í anda Gretu Thunberg hlutu í dag viðurkenninguna Eldhugar í umhverfismálum. Viðurkenningin, sem er veitt á vegum Reykjavíkurborgar er afhent árlega um mánaðamótin apríl-maí þegar vorhreinsun stendur yfir í borginni og átakið Hreinsum saman er í gangi.

Viðurkenningin er vitundarvakningu í umhverfismálum í víðri merkingu, m.a. í  loftslagsmálum. Oft hafa sjálfboðaliðar sem hafa lagt sig fram við fegrun og hreinsun borgarinnar fengið heiðurinn, en að þessu sinni falla þau í hlut hópsins sem staðið hefur fyrir loftslagsverkfallinu á Íslandi á fyrir komandi kynslóðir og sem Landssamtök íslenskra stúdenta, Samband íslenskra framhaldsskólanema, Ungir umhverfissinnar og Stúdentaráð Háskóla Íslands eiga aðild að.

Hljóta þau viðurkenninguna „fyrir atorku, frumkvæði og vitundarvakningu í umhverfismálum með mótmælunum á Austurvelli alla föstudaga í samstilltum aðgerðum á heimsvísu“ að því er fram kemur í tilkynningu Reykjavíkurborgar. Markmið aðgerðanna er að sýna stjórnvöldum að almenningur sé meðvitaður um alvarleika málsins og vilji róttækar aðgerðir.

„Mér er það því mikill heiður á veita ykkur, þessu frábæra hugsjónafólki sem standið saman að Verkföllum fyrir loftslagið, viðurkenningu fyrir ykkar ómetanlega framlag til loftslagsmála og þar með til framtíðar,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við afhendingu viðurkenningarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert