„Allt útrætt“ varðandi þungunarrof

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis.
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frumvarp um þungunarrof verður tekið aftur fyrir hjá velferðarnefnd Alþingis á mánudaginn eftir að Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins sem einnig er í velferðarnefnd, bað um að það færi þangað aftur eftir að hafa greint frá því í ræðu sinni undir lok annarrar umræðu um málið á Alþingi í gær. Málið var samþykkt út úr annarri umræðu fyrr í dag.

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, segist ekki vita hvers vegna Miðflokkurinn óskaði eftir þessu en telur að það hafi með vikufjöldann að gera ef marka megi ummæli andstæðinga frumvarpsins. Samkvæmt frumvarpinu verður þungunarrof heimilt fram að lokum 22. viku meðgöngu.

Hún bætir við að Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi einnig haft orð á því í pontu að réttast væri að málið færi aftur til nefndar vegna þess að finna þurfi breiðari sátt um vikufjöldann.

„Við erum búin að taka gríðarlega langan tíma í þetta mál í velferðarnefnd og fá fjöldann allan af gestum,“ segir Halldóra og nefnir að mismunandi sjónarmið hafi verið rædd fram og til baka. „Að mínu mati er þetta allt útrætt,“ segir hún og skilur ekki hvers vegna fólk vilji að málið fari aftur fyrir nefndina.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Hari

Þrír ráðherrar sátu hjá

Þrír ráðherrar sátu hjá þegar greidd voru atkvæði í dag um grein sem tengist vikufjöldanum, eða þau Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Greinin er forsendan fyrir því að konur geri sótt um þungunarrof til 22. viku meðgöngu.

„Mér hefði þótt eðlilegast að þau hefðu gert grein fyrir atkvæði sínu en þau gerðu það ekki,“ segir Halldóra.

Aðspurð segist hún vera bjartsýn á að frumvarpið verði samþykkt. „Annað er svo grátlegt. Þetta er gríðarlegt frelsismál fyrir konur.“

Eftir að málið hefur verið tekið fyrir í velferðarnefnd fer fram þriðja umræða um það á Alþingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert