Samningar undirritaðir í Karphúsinu

Samingar undirritaðir í nótt.
Samingar undirritaðir í nótt.

Samtök í samfloti iðnaðarmanna og Samtök atvinnulífsins hafa undirritað kjarasamninga í Karphúsinu, en undirritunin fór fram nú á öðrum tímanum.

„Þetta er góð tilfinning að vera kominn með kjarasamning í höfn hjá okkur. Þetta er búið að vera löng og ströng viðræðulota, og það er verulega ánægjulegt að klára þetta,“ sagði Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður iðnaðarmanna í kjaraviðræðunum, í samtali við mbl.is nú rétt eftir klukkan tvö. 

Spurður út í samninginn, segir Kristján að það sem sé einna stærst sé að „okkur er að takast að hækka lægstu laun iðnaðarmanna sérstaklega, og styðja við bakið á þeim sem eru í hvað verstri stöðu. Okkur er að takast að stytta vinnutímann, og erum hér sennilega með meiri vinnutímastyttingum sem hafa sést um langan tíma.“

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Í lok samningstímans geta félagsmenn verið að sjá 36 klukkustunda vinnuviku með ákveðnum breytingum á vinnuskyldunni. Við erum að taka upp breytt fyrirkomulag sem getur stuðlað að því að stytta heildarvinnutíma manna en jafnframt að tryggja þeim sem vinna hvað mest langan vinnudag, að tryggja þeim meiri verðmæti með breytingu á yfirvinnuálögum.“

Spurður um næstu skref, segir Kristján að unnið verði að því að útbúa kynningarpakka, og mun sú vinna hefjast á morgun. Eins verða samningarnir kynntir fyrir félagsmönnum, og eru fundirnir fyrirhugaðir í næstu og þarnæstu viku. Síðan muni þeir greiða atkvæði um þá. „Þá sjáum við hvernig viðbrögð við fáum frá félagsmönnum.“ Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verður svo kynnt 22. maí.

Spurður út í viðræðurnar og þann tíma sem hafi farið í þær, segir Kristján að „þetta eru sex kjarasamningar sem var verið að gera og það tekur tíma að lesa þetta allt yfir. Og það er í rauninni það sem gerir það að verkum að þetta tók þennan tíma.“

Samningarnir gilda til 1. nóvember 2022. 

Sex félög og sambönd standa að samfloti iðnaðarmanna í þessum samningaviðræðum. Þau eru Rafiðnaðarsamband Íslands, Samiðn, Grafía, Matvís, Félag hársnyrtisveina og VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna. Um 13 þúsund félagsmenn eru í þessum samtökum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert