Spilling veldur mestum áhyggjum

Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum veldur landsmönnum mestum áhyggjum.
Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum veldur landsmönnum mestum áhyggjum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum veldur landsmönnum mestum áhyggjum en áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og húsnæðismálum fara minnkandi.

Þetta kemur fram í könnun MMR sem var framkvæmd dagana 11.-15. febrúar.

Svarendur voru spurðir um hvaða þrjú atriði þeir hefðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Líkt og í fyrra voru það spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum (44%), fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður (35%), heilbrigðisþjónusta (35%) og húsnæðismál (30%) sem reyndust helstu áhyggjuvaldar þjóðarinnar, þó að röðun þeirra hafi tekið breytingum á milli ára, að því er kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar.

Auknar áhyggjur af loftslagsbreytingum

Af þeim áhyggjuefnum sem spurt var um hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum aukist mest frá könnun ársins 2018. Loftslagsbreytingar voru nefndar af 20% svarenda í nýafstaðinni könnun en það er aukning um sem nemur 11 prósentustigum.

Þá hafa áhyggjur af sköttum (7 prósentustiga aukning), verðbólgu (6 prósentustiga aukning), fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (5 prósentustiga aukning) og efnahagslegu hruni/samdrætti (4 prósentustiga aukning) einnig aukist á milli ára.

Áhyggjur af menntun hafa minnkað mest af öllum málefnum eða um því sem nemur 13 prósentustigum frá könnun síðasta árs, úr 17% í 5%. Þá hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (9 prósentustig), glæpum og ofbeldi (6 prósentustig) og húsnæðismálum (4 prósentustig) einnig minnkað yfir sama tímabil.

Stuðningsmenn Pírata með mestar áhyggjur af spillingu

Af fimm stærstu áhyggjuefnunum má sjá að konur sögðust hafa meiri áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (45%) og húsnæðismálum (35%) heldur en karlar (25% í báðum flokkum). Áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum fóru vaxandi með auknum aldri en 62% svarenda 68 ára og eldri kváðust hafa áhyggjur af spillingu, samanborið við 32% svarenda yngsta aldurshópsins (18-29 ára).

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Pírata (71%), Miðflokks (63%) og Flokks fólksins (60%) reyndist líklegast til að segjast hafa mestar áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum en stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (26%) og Viðreisnar (30%) ólíklegast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert