Katrín í viðtali við Amanpour á CNN

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali við Christine Amanpour hjá CNN.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali við Christine Amanpour hjá CNN. Skjáskot/CNN

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var í viðtali við sjónvarpsfréttakonuna Christiane Amanpour á CNN sjónvarpsstöðinni um loftslagsbreytingar, aðgerðarsinna og kvenréttindi.

Amanpour spurði Katrínu út aðkomu hennar að stjórnmálum. „Þú varst aðgerðarsinni, sem varðst svo forsætisráðherra eiginlega í gegnum grasrótina,“ sagði Amanpour. Katrín svaraði því til að hún kæmi af vinstri sinnuðu fólki sem léti sig stjórnmál varða.

„Ég byrjaði á því að mótmæla vegna umhverfismála,“ sagði Katrín og kvaðst aldrei hafa ætlað sér að verða stjórnmálamaður. „Það var aldrei draumur minn. Ég ætlaði að verða menntamanneskja, en ég fór út í stjórnmálin og er enn þar og get alltaf snúið mér að menningunni síðar.“

Amanpour spurði Katrínu því næst út hvernig það að vera aðgerðarsinni hafi áhrif á pólitík hennar. „Það er gjörólíkt því að vera aðgerðarsinni sem tekur þátt í mótmælum. Í stjórnmálum þarf maður að læra að gera málamiðlanir, en það er gott að hafa þessar rætur,“svaraði Katrín.

Jafnréttismál bar einnig á góma í viðtalinu og spurði Amanpour Katrínu m.a. út í hvernig stæði á því að Ísland væri á meðal þeirra landa í Evrópu þar sem flestar nauðganir væru tilkynntar miðað við höfðatölu.

„Ég held að á Íslandi, líkt og í mörgum öðrum löndum, þá höfum við ekki talað nóg um kynbundið ofbeldi. Það er ekki alltaf mælt í úttektum á kynjajafnrétti og þess vegna held ég að það hafi mögulega verið áfall fyrir marga að sjá allar þessar konur stíga fram og segja sína sögu þegar MeToo-bylgjan kom til Íslands,“ svaraði Katrín. 

Umhverfismál voru líka rædd og spurði Amanpour Katrínu einnig út í það hví Íslendingar losi meira af koltvísýringi á hvern einstakling en öll önnur ríki Evrópu. 

Því svaraði Katrín til að Íslendingum hefði tekist vel til á sumum sviðum umhverfismála. „Við notum rafmagn því við höfum endurnýjanlegri orku og við hitum húsin okkar með jarðvarma. Við höfum hins vegar líka verið að nota endurnýjanlegu orkuna í annað og erum með mikið af álverum. Það er hægt að segja að álframleiðsla sé ein af þremur undirstöðum íslensks efnahagslífs, og þar sjáum við mestu losunina, sem og í fluginu,“ sagði hún. „Við höfum heldur ekki verið að bregðast við loftslagbreytingum fyrr en nú,“ bætti Katrín við og nefndi þá tillögu stjórnvalda að ekki verði fluttir inn bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti frá og með árinu 2030 sem dæmi um aðgerðir sem verið sé að grípa til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert