Hækkun um 2 milljarða á mánuði

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn.
Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þrátt fyrir að tekjur Reykjavíkurborgar hafi aldrei verið meiri, enda skattar í hámarki og gjöld í hæstu hæðum, er afkoma borgarinnar lakari en árið 2017. Skuldir borgarinnar hækkuðu þannig um rúma tvo milljarða króna á mánuði á síðasta ári.

Þetta kemur fram í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við fyrri umræðu um ársreikning Reykjavíkurborgar sem fram fór í dag. Ástæðan fyrir þessu væri sú að útgjöld borgarinnar færu hratt vaxandi. Launakostnaður hefði vaxið um 10% á milli ára af reglulegum rekstri og svonefndur „annar rekstrarkostnaður“ hefði vaxið um 8%.

Fjármagnskostnaður snarhækkað

Þá segir í bókuninni að það veki sérstaka athygli að skuldir borgarinnar hafi haldið áfram að vaxa í góðæri. Skuldir borgarsjóðs hefðu þannig hækkuðu um átta milljarða og hefðu verið 108 milljarðar um síðustu áramót. Heildarskuldir borgarinnar hefðu hækkað enn meira eða um 25 milljarða og hefðu verið 324 milljarðar í lok síðasta árs.

Þetta væri hækkun um rúma 2 milljarða á mánuði árið 2018. Þetta gerðist á sama tíma og ríkissjóður lækkaði skuldir sínar. Afgangur af rekstri dugi ekki fyrir fjárfestingum og fjármagnskostnaður borgarinnar hafi snarhækkað á milli ára.

„Sendir borgarstjórn gula spjaldið“

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, benti meðal annars á það á fundi borgarstjórnar að samkvæmt fjárhagsáætlun hefðu skuldir Reykjavíkurborgar átt að vera 299 milljarðar króna en væru 324 milljarðar. Rekstrarkostnaður borgarinnar hækkaði umfram verðlag þrátt fyrir að kjarasamningum væri ekki lokið.

„Fjárfestingar eru hressilegar umfram afgang en ég velti fyrir mér hvort bjartsýni borgarstjóra muni koma okkur í gegnum það. [...] Þessi fyrsti ársreikningur á árinu sendir borgarstjórn gula spjaldið, enda afgangur sem var upp á 28 milljarða 2017 að minnka um 60% milli ára. Þá eru fjárfestingarnar hærri en reksturinn leyfir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert