Helmingur mótfallinn þriðja orkupakkanum

Stærsti hópurinn, eða 36,3%, segist ekki vita hvort hann sé …
Stærsti hópurinn, eða 36,3%, segist ekki vita hvort hann sé hlynntur eða andvígur orkupakkanum. mbl.is/​Hari

Tæpur helmingur þeirra sem taka afstöðu í nýrri könnun Zenter-rannsókna er mótfallinn því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur á Alþingi. Samkvæmt könnuninni sem gerð var fyrir Fréttablaðið og fjallað er um í blaðinu eru 48,7% þeirra sem tóku afstöðu mótfallin samþykkt þriðja orkupakkans, 29,6% eru hlynnt því og 21,7% hlutlaus.

Eru þetta svipaðar niðurstöður og úr könnun Zenter í desember í fyrra.

Þegar svör allra eru skoðuð kemur í ljós að stærsti hópurinn, eða 36,3%, segist ekki vita hvort hann sé hlynntur eða andvígur orkupakkanum. 30,5% eru andvíg, 18,5% hlynnt, 13,6% hlutlaus og rúmt 1% vildi ekki svara.

Er spurt var hversu vel eða illa fólk hefði kynnt sér þriðja orkupakkann sagðist tæpur þriðjungur, eða 32,1%, ekki hafa kynnt sér hann, 26,5% sögðust hafa kynnt sér hann illa. 22,2% kváðust hafa kynnt sér orkupakkann vel og 19,2% sögðust hvorki hafa kynnt sér hann vel né illa.

Þá eykst stuðningur við samþykkt þriðja orkupakkans eftir því sem fólk hefur kynnt sér málið betur. Sögðust þannig 46% þeirra sem höfðu kynnt sér málið vel vera hlynnt samþykkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert