Segir framgöngu SÍ sorglega

Augasteinaskipti eru algeng og margir á biðlista eftir þeim.
Augasteinaskipti eru algeng og margir á biðlista eftir þeim. Ljósmynd/Ólafur Már Björnsson

„Í fyrsta lagi er sorglegt að Sjúkratryggingar Íslands séu komnar í opinbert deiluferli við sjálfstætt starfandi lækna um biðlista og verð á aðgerðum sem er algjör óþarfi eftir 10 ára samstarf á þessu sviði, samstarf sem hefur gengið mjög vel og verið til fyrirmyndar,“ segir Eiríkur Þorgeirsson, augnlæknir hjá Lasersjón, í athugasemdum sem hann sendi Morgunblaðinu vegna yfirlýsingar sem Sjúkratryggingar Íslands, SÍ, sendu frá sér á mbl.is í kjölfar umfjöllunar blaðsins um augasteinaaðgerðir á laugardag.

Í yfirlýsingu SÍ kemur fram að þær greiði Landspítala, LSH, 97.000 kr. fyrir hverja aðgerð en einkastofur fái 146.000 kr. Eiríkur bendir á að einhvers staðar í þessum samningum hafi myndast ósamræmi af einhverjum ástæðum. Það myndi koma í ljós í réttu ferli og ósanngjarnt sé að reka umræðuna í fjölmiðlum.

Eiríkur bendir einnig á að Lasersjón hafi tekið virkan þátt í að leysa biðlistavanda stjórnvalda á síðasta ári, gert 400 aukaaðgerðir og gefið stjórnvöldum u.þ.b. 25% afslátt af umsömdu verði. 

Biðlistaátak ákveðið

„Tæki og tól sem notuð eru til þess að framkvæma augasteinaaðgerðir eru ekki hluti af tækjabúnaði sem okkur hefur verið gefinn,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala. Hún segir að í föstum fjárveitingum hafi verið gert ráð fyrir 1.200 aðgerðum.

Stjórnvöld ákváðu að fara í biðlistaátak og tóku ákvörðun um 97.000 kr. greiðslu fyrir umframaugasteinaaðgerðir hjá LSH. Anna Sigrún segir að LSH verðmeti í DRG-reiknilíkani sem innifeli allan kostnað, stjórnunarkostnað, húsnæði, tæki o.þ.h.

„Það segir sig sjálft að hagkvæmni stærðarinnar nýtist LSH vel þegar við bætast fleiri aðgerðir eins og t.d. augasteinaskipti,“ segir Anna Sigrún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert