Furðulegt að byggja breytingartillögu á tilfinningum

Halldóra Mogensen er formaður velferðarnefndar og þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen er formaður velferðarnefndar og þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég get ekki svarað því. Það yrði samtal sem ég þyrfti að taka með þingflokknum,“ segir Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, spurð hvernig hún myndi greiða atkvæði með frumvarpi um þungunarrof ef breytingartillaga Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um að heim­ilt verði að fram­kvæma þung­un­ar­rof upp að 20. viku í stað upp að 22. viku yrði samþykkt

Heit umræða var um frumvarpið á þingi í gær. At­kvæðagreiðsla um frum­varp Svandís­ar Svavars­dótt­ur heil­brigðisráðherra um þung­un­ar­rof mun ekki fara fram fyrr en í næstu viku líklega á mánudaginn, að þriðju umræðu lok­inni. 

Halldóra tekur fram að henni þyki það ólíklegt að breytingartillaga Páls verði samþykkt. „Þetta er hans tilfinning fyrir málinu. Mér finnst furðulegt að leggja fram breytingartillögu byggða á tilfinningum. Mér líður eins og að þeir aðilar sem eru að koma fram með tillögur núna hafi kannski ekki kynnt sér málin vel,” segir Halldóra og bendir á að með því að stytta vikufjöldann er verið takmarka núverandi rétt kvenna til að fara í þungunarrof, en kona getur fengið þungunarrof í dag upp að 22. viku. 

Hún tekur fram að það sé ástæða fyrir því að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að heimila þungunarrof upp að 22. viku meðgöngu. Vikufjöldinn var það atriði í frumvarpinu sem var mest rætt í velferðarnefndinni. „Þetta var efst í huga flest allra sem komu til okkar. Við erum búin að skoða alla möguleika fram og til baka meðal annars við 18. vikur eða 20. vikur og að setja inn ýmsar undanþágur en þetta var niðurstaðan,“ segir Halldóra og ítrekar að hún telji málið útrætt.

Halldóra vísar meðal annars til upplýsinga sem nefndin fékk frá Landspítalanum að fóstur telst ekki lífvænlegt fyrir 23. viku. „Ef þessi breytingartillaga væri samþykkt væri verið að skerða núverandi rétt kvenna til að fara í þungunarrof ef það kæmi  upp alvarlegir fósturgallar í 20. vikna sónar. Þá erum við sem samfélag að neyða þær konur til að ganga með og eiga börn sem mögulega gætu ekki lifað,“ segir Halldóra. 

„Við getum ekki séð fyrir allar þessar mögulegu aðstæður sem geta komið upp á lífi kvenna og því er engin betur til þess fallin að taka þessa ákvörðun en konan sjálf,“ segir Halldóra. 

Hún segir hitann í þriðju umræðunni um frumvarpið ekki hafa komið sér á óvart því hún hafi séð í hvað stefndi í fyrstu umræðunni í desember. „Ég hélt að fólk hugsaði ekki svona lengur. Ég virði að fólk hafi mismunandi tilfinningar og skoðanir á þessu. Í grunninn er þetta trúarlegt viðhorf og ber virðingu fyrir því en ég held að ekki sé hægt að setja lög byggð á því viðhorfi,” segir Halldóra.    



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert