Vissu að evrusvæðið myndi leiða til efnahagserfiðleika

Mervyn King, fyrrverandi bankastjóri Englandsbanka.
Mervyn King, fyrrverandi bankastjóri Englandsbanka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilurð evrusvæðisins var algerlega ótímabær. Þetta kom meðal annars fram í máli Mervyns Kings, fyrrverandi bankastjóra Englandsbanka, á fundi á vegum viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og Samtaka sparifjáreigenda sem fram fór í hátíðarsal skólans í gær.

King brást þar við fyrirspurn frá Benedikt Jóhannessyni, fyrrverandi fjármálaráðherra, sem innti bankastjórann fyrrverandi eftir sýn hans á stöðu mála á evrusvæðinu. Sagðist King ekki þekkja nein dæmi í sögunni um myntbandalag sem hefði lifað af án þess að hafa orðið að einu ríki (e. full political union). Ef ekki væri vilji til þess að taka það skref væri betur heima setið.

King sagði áhrifafólk innan Evrópusambandsins hafa gert sér fulla grein fyrir því að evrusvæðið væri ávísun á vandamál eins og staðið hefði verið að því. Það fyrirkomulag gæti ekki gengið. Það kæmi til efnahagskreppu á endanum en hún myndi hins vegar neyða ráðamenn innan sambandsins til þess að fara alla leið og breyta því í eitt ríki.

„Þeir trúa þessu ennþá, þeir trúa því enn að Þýskaland verði aldrei reiðubúið til að láta myntbandalagið hrynja og að lokum muni þýskir kjósendur neyðast til þess að niðurgreiða skuldir [evru-]ríkja í suðrinu,“ sagði King. Leiðtogar Evrópusambandsins hefðu engan veginn staðið sig í þessum efnum. Án sameiginlegra ríkisfjármála væri ábyrgðarlaust að setja myntbandalag á laggirnar.

Evruríki föst þar sem þau eru

Þetta hefði meðal annars leitt til þeirra efnahaglegu erfiðleika sem Grikkir hefðu þurft að takast á við, sem hefðu verið jafnvel verri en efnahagskreppan á fjórða áratug síðustu aldar. Það væri hneyksli að hans áliti. Ríki evrusvæðisins væru á milli steins og sleggju. Þau legðu ekki í að yfirgefa evrusvæðið, þótt það væri misheppnað, og ekki væri heldur nægur vilji til þess að taka skrefið í átt að sameiginlegum fjármálum. „Þau eru algerlega föst þar sem þau eru.“

King sagði ekki hægt að fara út í „ævintýri“ eins og evrusvæðið án þess að vera heiðarlegur við kjósendur og tjá þeim hvað því myndi fylgja. Ekki hefði verið heiðarlegt að segja kjósendum að ekkert neikvætt fylgdi evrusvæðinu og ekki þyrfti að hafa neinar áhyggjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert