Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti ekki von á því við upphaf stjórnmálaferils síns að hún myndi standa í pontu og óska álfyrirtækjum til hamingju með 50 ára afmælið. Þrátt fyrir góða hugmynd efast hún þó um að álver verði á jólakorti Stjórnarráðsins þetta árið.
Þetta sagði Katrín þegar hún ávarpaði ársfund Samáls í Hörpu í morgun, þar sem umhverfis- og öryggismál eru í brennidepli og þess er minnst að hálf öld er liðin frá því álframleiðsla hófst á Íslandi.
Katrín notaði tækifærið til þess að hrósa álfyrirtækjum fyrir skjót og markviss viðbrögð við MeToo-byltingunni og sagðist vonast til þess að viðbrögð við slæmri stöðu loftslagsmála yrðu með svipuðum hætti.
Sagðist hún ánægð með áherslur ársfundarins og ítrekaði mikilvægi samráðs stjórnvalda og atvinnulífs í umhverfismálum. Undirbúningur samráðsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs í þessum málum væri langt kominn. Þá sagði Katrín ríkisstjórnina hyggjast kynna sértækar aðgerðir úr aðgerðaáætlun í loftslagsmálum á sviði orkuskipta og aukinnar kolefnisbindingar síðar í þessum mánuði.
Katrín sagðist bjartsýn á að stóriðja á Ísland yrði kolefnishlutlaus í framtíðinni, þar á meðal álfyrirtæki, og að þrátt fyrir smæð væri mikilvægt að Ísland sýndi gott fordæmi í þessum málum, enda hefði það sýnt sig í gegnum tíðina að smáþjóðir geti haft mikil áhrif á framþróun.