Þjófar á ferð á hóteli

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Tilkynnt var um þjófa á ferð á hóteli í miðborginni á fjórða tímanum í nótt. Skömmu síðar var par handtekið og vísaði það á þýfið, að sögn lögreglu. Parið var látið laust að lokinni skýrslutöku. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þriggja ára gamalt barn var flutt á bráðamóttöku Landspítalans í gærkvöldi eftir slys í heimahúsi en barnið hafði dottið á borð og fengið skurð á ennið. Starfsfólk bráðamóttökunnar leitaði síðar um kvöldið eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem var til vandræða þar og vísaði lögregla honum af bráðamóttökunni.

Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á veitingastað í miðborginni á áttunda tímanum í gærkvöldi þar sem gestur neitaði að yfirgefa staðinn. Honum var vísað út af lögreglu. 

Um klukkan 21 fékk lögregla tilkynningu um kannabislykt í fjölbýlishúsi í Reykjavík og ræddi lögreglan við íbúa sem viðurkenndu kannabisneyslu fyrr um kvöldið. Ekið var á bifreið í Rofabæ um kvöldmatarleytið en sá stakk af og er ekki vitað hver þar var að verki. 

Þrír voru teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og reyndist einn þeirra vera með fíkniefni á sér. Allir voru þeir látnir lausir að lokinni blóðsýnatöku. Einn var tekinn fyrir ölvunarakstur og var hann einnig látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

   .

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert