10 mánuðir fyrir að ráðast á fyrrverandi

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hari

Landsréttur staðfesti í dag 10 mánaða dóm yfir karlmanni fyrir líkamsárás gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni, með því að hafa slegið hana ítrekað í andlit, læri og mjöðm. Fékk konan mar og bólgur í andliti og önnur eymsli vegna árásarinnar.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn og konan hafi áður verið í sambúð, en að sambúðinni hafi lokið nokkrum árum fyrir árásina sem átti sér stað árið 2017. Þá hafi þau ákveðið að hittast , tekið sér hótelherbergi og farið út að borða saman. Þau fóru svo í sitt hvora áttina til að skemmta sér eftir það.

Samkvæmt frásögn konunnar fór hún heim á hótelherbergið síðar um kvöldið og farið að sofa. Hafi maðurinn komið nokkru síðar og farið að strjúka henni. Þegar hún bað hann um að hætta hafi hann reiðst og slegið hana. „Síðan hafi höggum rignt yfir hana,“ segir út frá framburði hennar í dóminum. Maðurinn hafði hins vegar aðra sögu að segja og sagði konuna hafa byrjað átökin. Dómurinn taldi framburð hans hins vegar ótrúverðugan meðan framburður konunnar hafi verið trúverðugur.

Var maðurinn dæmdur í tíu mánaða fangelsi í héraði og til að greiða konunni 800 þúsund í miskabætur. Sem fyrr segir staðfesti Landsréttur dóminn nú í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert