Hugarafl „mikilvægur hlekkur“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var viðstaddur opnunina.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var viðstaddur opnunina. Sigurður Bogi Sævarsson

Nýtt húsnæði félagasamtakanna Hugarafls var formlega opnað í dag. Var Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, viðstaddur opnunina en fyrir atbeina hans og félagsmálaráðuneytisins var í haust gerður þjónustusamningur á milli Vinnumálastofnun og Hugarafls. Frá þessu er greint á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands.

Var tímamótum Hugarafls fagnað á opnuninni en með samningnum kaupir Vinnumálastofnun þjónustu félagsins á sviði starfsendurhæfingar fyrir fólk með geðraskanir. Verður sérstök áhersla lögð á ungt fólk á aldrinum 18-30 ára og er markmiðið að veita stuðning til fólks í endurhæfingu sem vill hlúa að geðheilsunni og komast út á vinnumarkaðinn, í nám eða almennt auka lífsgæði sín.

Er haft eftir Ásmundi frá opnuninni að Hugarafl sé mikilvægur hlekkur í að rjúfa félagslega einangrun sem oft skapist í kjölfar geðræns vanda. Úthlutaði hann auk þess tvö hundruð þúsund krónum af ráðstöfunarfé sínu til félagssamtakanna.

Á vefsíðu Hugarafls kemur fram að nýi samningurinn sé merkur áfangi sem gefi félaginu von um bjarta framtíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert