Æfðu á hættulegasta fjalli landsins

Setja þarf upp flókin línukerfi til að koma sjúklingum niður …
Setja þarf upp flókin línukerfi til að koma sjúklingum niður af fjallinu. Ljósmynd/Magnús Viðar

Björgunarsveitir á Snæfellsnesi og undanfarar á höfuðborgarsvæðinu og af Akranesi æfðu í dag björgun af Kirkjufelli við Grundarfjörð á Snæfellsnesi. Undanfarin ár hafa orðið þar tvö banaslys auk þess sem björgunarsveitir hafa í þó nokkur skipti þurft að bjarga fólki niður sem hefur annað hvort lent í sjálfheldu eða slysi.

Þór Þorsteinsson var einn af þeim sem kom að stjórnun aðgerða á æfingunni í dag, en hann er varaformaður Slysavarnarfélagsins Landsbjörg og í landsstjórn félagsins. Mbl.is náði tali af honum þegar björgunarsveitarfólk var á leið niður með sjúklingana sem aðstoðuðu við æfinguna. Hann segir að fjallið hafi verið valið sem æfingastaður þar sem það sé orðið hættulegasta fjall landsins. Telur hann upp banaslysin og önnur verkefni sem hefur þurft að sinna í fjallinu og segir  nauðsynlegt fyrir björgunarsveitir að æfa viðbragð við stórum slysum þar.

Ekki er hægt að bera sjúklinga niður, heldur eru sett …
Ekki er hægt að bera sjúklinga niður, heldur eru sett upp línukerfi eins og sjá má hér. Ljósmynd/Þóra Jónasdóttir

Til viðbótar var fjallið valið þar sem það er mjög krefjandi svæði fyrir björgunarfólk. „Björgun úr Kirkjufelli er bæði tæknileg og flókin,“ segir hann. Þannig sé fjallið bratt, mikið um hamra í því og engin leið að bera fólk niður í börum. „Það þarf að nota línukerfi og láta fólk síga niður,“ segir Þór og bætir við að það sé mjög erfitt að athafna sig í fjallinu fyrir björgunarfólk.

Þór Þorsteinsdóttir, sem situr í landsstjórn og er varaformaður Landsbjörg, …
Þór Þorsteinsdóttir, sem situr í landsstjórn og er varaformaður Landsbjörg, var á vettvangi í dag. Ljósmynd/Magnús Viðar

Þegar mbl.is ræddi við Þór var verið að flytja sjúklingana niður í línukerfum, þar af tvo sem áttu að hafa slasast alvarlega og þrjá sem voru minna slasaðir. Samtals komu 40-50 björgunarmenn að aðgerðum, bæði þeir sem voru í aðgerðinni sjálfri í fjallinu og þeir sem stýrðu henni við fjallsrætur.

Æfingin var keyrð þannig að hún væri sem raunverulegust að sögn Þórs. Þannig voru það heimamenn sem sinntu fyrsta viðbragði, meðan aðrar bjargir frá Akranesi og höfuðborginni lögðu af stað um klukkustund síðar. Sáu heimamenn um að tryggja leiðir upp, komast að sjúklingum með að síga til þeirra og tryggja svo öryggi sjúklinganna og annast þá þangað til seinni bylgjan kom.

Frá æfingunni í dag.
Frá æfingunni í dag. Ljósmynd/Magnús Viðar

Þór segir að þar komi sterkt inn hvernig tekist hafi að byggja upp góða sérhæfingu, t.d. í fjallabjörgun, hjá stærri sveitum á suðvesturhorninu. Þaðan hafi svokallaðir undanfarar komið og aðstoðað við tæknilega vinnu og björgunina. Undanfarar eru sérþjálfaðir björgunarmenn sem sérhæfa sig meðal annars í fjalla- og sprungubjörgun. „Þetta var góð æfing þar sem æfð var samvinna heimamanna og bjarga frá öðrum stöðum,“ segir Þór og bætir við að nauðsynlegt sé að gera slíkt reglulega og ekki síst á þeim svæðum þar sem reglulega komi upp útköll.

Fylgst með aðgerðum úr æfingastjórn við fjallsrætur.
Fylgst með aðgerðum úr æfingastjórn við fjallsrætur. Ljósmynd/Magnús Viðar

Veðrið lék við björgunarsveitarfólkið, eins og sjá má af myndunum sem fylgja fréttinni. Þór segir að þótt oft þurfi björgunarsveitarfólk að vinna við verri veðuraðstæður, þá sé gott að geta æft vel tæknileg atriði við góðar aðstæður eins og í dag. „Við tökum alltaf eitthvað úr hverri æfingu, en það er búið að ganga mjög vel á heildina litið,“ segir hann.

Björgunarsveitarfólk hlúir að sjúklingi á toppi Kirkjufells á æfingunni í …
Björgunarsveitarfólk hlúir að sjúklingi á toppi Kirkjufells á æfingunni í dag. Ljósmynd/Magnús Viðar
Frá æfingunni í Kirkjufelli í dag.
Frá æfingunni í Kirkjufelli í dag. Ljósmynd/Þóra Jónasdóttir
Á milli 40 og 50 manns komu að æfingunni og …
Á milli 40 og 50 manns komu að æfingunni og var henni stýrt úr stjórnstöðvarbílnum Birninum. Ljósmynd/Þóra Jónasdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert