Engin ólga í flokknum vegna orkupakkans

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og málaráðherra, segir að þegar mál líkt …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og málaráðherra, segir að þegar mál líkt og þriðji orkupakkinn koma upp, þar sem mismunandi sjónarmið ríkja, sé það hlutverk þeirra sem að málinu koma að finna sameiginlega lausn. „Það er staðan hvað þetta mál varðar,“ segir ráðherrann. mbl.is/RAX

„Ég fagna umræðu um orkumál og framtíðarstefnumótun þar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í samtali við mbl.is. Fundur utanríkismálanefndar á fimmtudag þar sem fjallað var um þriðja orkupakkann hefur vakið talsverða athygli, en þann fund sat meðal annars Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokkurinn, þar sem hann gerði grein fyrir sjónarmiðum samtakanna Orkunnar okkar, sem eru andvíg innleiðingu þriðja orkupakkans.

Lilja segir að eðlilega séu líflegar umræður um orkupakkann innan þingflokksins en hún kannast ekki við að „allt leiki á reiðiskjálfi“ í flokknum líkt og fullyrt var á vef Fréttablaðsins í gær.

„Bakland Framsóknarflokksins er öflugt og vill stöðugt vinna að framfaramálum fyrir Ísland og það er dýrmætt fyrir hvern stjórnmálaflokk að eiga slíkan auð. Við erum öll sammála um það að það beri að tryggja hagsmuni Íslands og að því er unnið,“ segir Lilja.

Segir útilokað að ACER fari með stefnumótun í orkumálum Íslands

Hún segir mestu máli skipta í umræðunni um innleiðingu þriðja orkupakkans að ekki sé um að ræða framsal valds til yfirþjóðlegrar stofnunar og að skuldbindingarnar samræmist stjórnarskránni. „Þriðji orkupakkinn er undir tveggja stoða EES-samstarfinu enda er annað útilokað í mínum huga, það er að ég tel útilokað að ACER-stofnunin fari með stefnumótun í orkumálum Íslands,“ segir Lilja.

Þegar mál líkt og orkupakkinn koma upp, þar sem mismunandi sjónarmið ríkja, segir Lilja það vera hlutverk þeirra sem að málinu koma að finna sameiginlega lausn. „Það er staðan hvað þetta mál varðar. Við erum í góðu og uppbyggilegu samtali við okkar fólk og vinnum að þessu máli.“

Snertir streng um nýtingu á auðlindum landsins

Lilja segir umræðuna um þriðja orkupakkann hafa farið vel fram innan þingflokksins. „Þó að málið fjalli ekki sem slíkt um nýtingu á auðlindum Íslands þá snertir það samt þann streng hjá mörgum og þess vegna er mikilvægt að við förum í þessa umræðu og við höfum gefið okkur tíma í það, það hafa margir komið að þessari vinnu. Þetta opnar á umræðu um aðra þætti málsins, til dæmis varðandi stjórn á auðlindum, hún mun aldrei fara frá Íslandi.“

Þá segir Lilja að áhugaverðir tímar séu fram undan í orkumálum þar sem reynir á hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd. „Íslensk stjórnvöld munu aldrei gefa eftir stjórn auðlinda sinna og nú er verið að vinna drög að frumvarpi sem takmarka kaup erlendra aðila að landi á Íslandi, það mun birtast á næstu misserum,“ segir ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert