Áreiðanlegar upplýsingar um laun og efnahag

Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson við undirritunina …
Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson við undirritunina í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Samkomulag um hlutverk og umgjörð Kjaratölfræðinefndar var undirritað á 15. samráðsfundi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í Ráðherrabústaðnum í dag. Nefndin á að taka saman áreiðanlegar upplýsingar um laun og efnahag sem nýtast við undirbúning kjarasamninga.

Kjaratölfræðinefndin er samstarf heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum.

Nefndinni er ætlað að stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, …
Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, skrifa undir í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Í nefndinni eiga sæti forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Hagstofa Íslands.

Fram kemur í tilkynningunni, að félags- og barnamálaráðherra skipi nefndina til fjögurra ára í senn eftir tilnefningum þeirra sem eigi aðild að nefndinni, einn fulltrúa frá hverjum aðila. Ráðherra skipar jafnframt formann nefndarinnar án tilnefningar. Nefndin er hýst hjá Ríkissáttasemjara sem leggur til fundar- og starfsaðstöðu.

Endurskoðun á samkomulagi um Þjóðhagsráð, vinnu við gerð fyrirhugaðrar grænbókar um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála og um eftirfylgni með aðgerðum ríkisstjórnar í tengslum við gerð Lífskjarasamninga var einnig til umfjöllunar á fundinum, segir á vef Stjórnarráðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert