Sýrlenskir flóttamenn til landsins

Sýrlensku flóttamennirnir komu frá Líbanon í gær og munu setjast …
Sýrlensku flóttamennirnir komu frá Líbanon í gær og munu setjast að á Hvammstanga. Von er á öðrum hópi í dag sem mun fara á Blönduós. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hópur sýrlenskra kvótaflóttamanna, alls 23 manns, komu til landsins í gær. Um er að ræða ungt fjölskyldufólk, 13 börn og tíu fullorðna. Fólkið fór til Hvammstanga þar sem það mun setjast að.

Annar tuttugu manna hópur, börn og fullorðnir, er væntanlegur í dag og mun hann setjast að á Blönduósi. Ein fjölskylda úr þessum hópum mun setjast að í Árborg þar sem hún hefur tengsl. Innan skamms er svo von á sex manna fjölskyldu til viðbótar og mun hún setjast að á Blönduósi. Alls er því von á 49 kvótaflóttamönnum að þessu sinni og um 75 manns á árinu.

Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur í málefnum flóttamanna hjá félagsmálaráðuneytinu, sagði að fólkið hefði dvalið í Líbanon undanfarin ár við misjafnar aðstæður. Líbanon er lítið land, um einn tíundi af stærð Íslands að flatarmáli. Þar búa um sex milljónir, þar af eru um 20% flóttamenn. Linda segir að Líbanir leyfi ekki flóttamannabúðir þannig að flóttamennirnir búa margir við bágar aðstæður í herbergjum sem þeir leigja, eða í skúrum og aukaherbergjum sem hafa verið byggð á húsþökum, að því er fram kemur í umfjöllun um komu flóttamanna til Íslands í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert