„Það voru þrír gæjar í Nirvana og það dugði“

Ragnar Eiríksson, Ólafur Örn Ólafsson og Bragi Skaftason eru að …
Ragnar Eiríksson, Ólafur Örn Ólafsson og Bragi Skaftason eru að standsetja húsnæðið. mbl.is/​Hari

„Við verðum vonandi farnir úr skítagallanum og komnir í huggulegri föt eftir tvær vikur. En þessu miðar vel,“ segir Ragnar Eiríksson matreiðslumaður.

Ragnar undirbýr nú opnun nýs veitingastaðar á Laugavegi 27 ásamt félögum sínum, þeim Ólafi Erni Ólafssyni og Braga Skaftasyni. Staðurinn verður í húsnæðinu þar sem kaffihúsið Tíu dropar var um árabil en hefur að undanförnu hýst asíska veitingastaðinn Pho. Á nýja staðnum verður lögð áhersla á gott vín og því þótti þeim félögum vart annað koma til greina en að nefna hann Tíu sopa.

„Það var reyndar bara í gríni fyrst en fólk er hrifið af þessu svo við notum nafnið. Við ætluðum upphaflega að kalla þetta Vínstúkuna en það er gamalt orð fyrir vínbar. Núna notum við þetta sitt á hvað, Vínstúkan og Tíu sopar.“

Létt og kósí matreiðsla

Ragnar segir að á Tíu sopum verði gott úrval af víni og vínvænum smáréttum með. „Þetta verða litlir bitar sem gott er að grípa með vínglasi. Þú kemur ekki hingað í steik, þetta verður létt og kósí.“

Hann segir að vínsérfræðingurinn Ólafur Örn sé að setja saman veglegan vínseðil og á honum verði gott úrval af náttúruvíni og víni frá minni framleiðendum.

Báðir tengjast þeir veitingastaðnum Dill. Ólafur var einn stofnenda staðarins og Ragnar var yfirkokkur þegar Dill hlaut Michelin-stjörnu. Hann segir þó að matseldin á Tíu sopum verði ekki í líkingu við Dillið og matseðillinn einfaldur.

„Ég ætla ekkert endilega að binda mig við nýnorræna eldhúsið. Þetta verður bara einfalt, 3-4 atriði eru alveg nóg á disk. Það voru þrír gæjar í Nirvana og það dugði,“ segir hann og hlær.

Þriðji maðurinn, Bragi, stofnaði síðast Veður á Klapparstíg og rak. „Hann er forstjórinn. Það er gott að hafa einn fullorðinn með,“ segir Ragnar.

„Einhver sál í þessu húsi“

Hann kveðst sannfærður um að markaður sé fyrir vínbar í miðborg Reykjavíkur. Þetta sé raunar akkúrat staðurinn sem vantað hafi. „Við erum samt bara að smíða stað sem okkur langar sjálfa að vera á. Þetta er svona staður sem við færum á í útlöndum. En svo er þetta líka svo þægilegt og kósí húsnæði. Það er einhver sál í þessu húsi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert