Tregi eftir 33 ár á kaffistofunni

Ágústa Sigurjónsdóttir var heiðruð af starfsfólki Félagsstofnunar stúdenta sem og …
Ágústa Sigurjónsdóttir var heiðruð af starfsfólki Félagsstofnunar stúdenta sem og kúnnum sínum í gegnum árin í Hámu í Eirbergi, einni bygginga háskólans. mbl.is/Árni Sæberg

Tregablandin sorg og söknuður lágu í loftinu þegar Ágústa Sigurjónsdóttur var heiðruð með kveðjuathöfn í Eirbergi, húsnæði hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands í dag.

Hún hefur verið nemendum sem móðir, sálusorgari og huggari í neyð. „Hún var kletturinn,“ segir einn. Ágústa hefur óbrigðul staðið vaktina á kaffistofunni í 33 ár í Eirbergi. Hún er nemendum svo kær að nýverið nefndu þeir lesstofu í höfuðið á henni. Og nú er hún að fara á eftirlaun.

Ágústa þiggur blóm í tilefni starfslokanna. Þau eru orðin 34, …
Ágústa þiggur blóm í tilefni starfslokanna. Þau eru orðin 34, árin sem hún hefur starfað í kaffistofunni í Eirbergi. Árni Sæberg

Ágústa hefur unnið fyrir Félagsstofnun stúdenta frá því 1985. Ári síðar hóf hún störf á nefndri kaffistofu og hefur ekki yfirgefið hana síðan. Háma í Eirbergi verður ólík án hennar, það er ljóst. Og margt hefur breyst á langri starfsævi, segir hún.

„Svona er lífið“

„Mér hefur alltaf fundist þetta jafngaman. Ef mér hefði fundist þetta leiðinlegt, hefði ég hætt,“ segir Ágústa þegar blaðamaður mbl.is nær tali af henni við þetta tilefni. „Ég þreyttist aldrei,“ segir hún.

Þreyttist ekki á langri starfsævi, segir hún. 34 ár og tíminn líður. „Ég hefði ekki trúað þessu, svei mér þá. Svona er lífið,“ segir Ágústa. 

Nú taka við eftirlaunaár hennar með eiginmanni sínum Andrési F. G. Andréssyni, skrifstofumanni. Hann fór á eftirlaun á undan Ágústu, sem vann 11 ár umfram eftirlaunaaldurinn, sem er öllu jöfnu 67 ára.

Ágústa var kletturinn

Hjúkrunarfræðideild háskólans hefur aðstöðu í Eirbergi. Þar er ljósmóðurnemum einnig kennt. Þær sem blaðamaður ræddi við voru allar á einu máli: Ágústa var einstök. Hún spjallaði við alla, hló með þeim, studdi stelpurnar og hvatti þær áfram í náminu. Hún var kletturinn, var sagt. Samband hennar við nemendurna og annað starfsfólk hússins var einstakt.

Eirberg er hús hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands. Þar nema bæði hjúkrunarfræðingar …
Eirberg er hús hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands. Þar nema bæði hjúkrunarfræðingar verðandi og ljósmóðurnemar. mbl.is/Eggert

Ágústa er þakklát fyrir gott samband við nemendur í húsinu. „Ég held að upp úr standi ánægjan að þjónusta og vera innan um ungt fólk. Að vera innan um ungt fólk er rosalega gefandi,“ segir hún.

Hún segir alls ekki fráleitt að ætla að nemendurnir hafi haldið henni ungri öll þessi ár. „Ég tek undir það. Þetta eru margar kynslóðir fólks sem maður hefur kynnst hérna. Það er ómetanlegt þegar hér kemur fólk bara til að heilsa upp á mann eftir öll þessi ár og gefa manni knús. Ómetanlegt,“ segir hún.

Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, fellst í faðmlög við Ágústu …
Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, fellst í faðmlög við Ágústu í Hámu. Árni Sæberg

Venju samkvæmt hefði Ágústa átt að fara á eftirlaun fyrir 11 árum. Hún er 78 ára. Ljóst er að eitthvað hefur haldið henni ungri. Hún er þakklát fyrir að hafa haft heilsu til að vinna eins lengi. „Ég segi og hef sagt: Það eru forréttindi að fá að vinna þegar maður er orðinn svona fullorðinn. Að vera nógu heilsuhraustur til þess ekki sjálfsagt,“ segir hún. Hún ítrekar í því sambandi þakklæti sitt til Félagsstofnunar stúdenta, þar sem hún segir geysilega gott að vinna. „Það er þeim að þakka að manni sé ekki bara sagt upp,“ segir hún. „Og það er rosalega mikils virði.“

Orkudrykkirnir áhyggjuefni

Eirberg er eins og segir húsnæði fyrir afmarkaðan hóp nemenda. Þar er hópurinn þéttur. Ágústa hóf störf þegar byggingin var opnuð. Ýmislegt hefur breyst síðan þá, á 33 árum.

„Fyrst þegar ég byrjaði voru þetta bara rúnstykki, flatkökur og kleinur. Kannski skonsur. Þetta hefur breyst alveg rosalega síðan þá,“ segir Ágústa. Nú er boðið upp á allt á milli himins og jarðar í Hámu. „Hér er rosa mikið í boði núna. Alls konar smurt brauð, núðlur og alltaf heit súpa í hádeginu,“ segir hún.

Sumt breytist ekki. Flatkökurnar eru enn þá. Kleinurnar, skonsurnar og rúnstykkin. Sömuleiðis hefur alltaf verið boðið upp á kaffi, te og öl. En vá ber að dyrum, segja sumir, og það eru orkudrykkirnir. Þeir eru einkar vinsælir meðal ósofinna nemenda.

„Nú eru allir þessir orkudrykkir líka. Þetta er svo mikil flóra að það er varla pláss fyrir þetta á kaffistofunni!“ segir Ágústa spurð út í þessa viðbót við íslenska veitingaþjónustu. Henni hugnast ekki þróunin, satt að segja. „Ég hef áhyggjur af þessu. Ég held að þessir orkudrykkir séu ekki heilsusamlegir,“ segir hún. „Það er svo ofboðslega mikið drukkið af þessu,“ segir hún.

Heilbrigðisvísindanemar virðast ekki vammlausari en aðrir í þessu tiltekna heilbrigðismáli.

Kemur maður í manns stað?

Ágústa segir að nú verði hún bara að finna sér eitthvað annað að gera. Viðbrigðin verða kannski fyrst tilfinnanleg í haust, því kaffistofan er hvað sem öðru líður lokuð á sumrin. „Ég er búin að taka að mér að vera formaður kvenfélags Fríkirkjunnar í tvö ár. Ég hef þá um það að hugsa. Svo förum við hjónin bara að gera eitthvað skemmtilegt,“ segir hún.

Samband Ágústu, t.h., við nemendurna og annað starfsfólk hússins var …
Samband Ágústu, t.h., við nemendurna og annað starfsfólk hússins var sagt einstakt. Árni Sæberg

Hún er þó búin að skuldbinda sig í eitt: að kíkja í heimsókn í Eirberg. „Ég mun sakna nemendanna. Það er á hreinu. Og ég er búin að lofa því að koma í heimsókn, bæði nemendum og starfsfólki,“ segir hún.

Komið er að tímamótum og nýr starfsmaður tekur við keflinu næsta haust. Ágústa sér ekki fram á annað en að viðkomandi fylli með sóma í hennar skarð. „Ég segi það alltaf. Það kemur maður í manns stað,“ segir hún.

Spurningin er hvort nemendur í Eirbergi geti tekið undir þá fullyrðingu með góðu móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert