Skólahald leggst niður í Grímsey

Fræðsluráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að fella niður skólahald í Grímseyjarskóla …
Fræðsluráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að fella niður skólahald í Grímseyjarskóla tímabundið veturinn 2019-2020 meðan ekki eru fleiri nemendur skráðir í skólann, en aðeins einn nemandi á grunnskólaaldri verður búsettur í eyjunni á næsta skólaári. mbl.is/Golli

Skólahald verður lagt niður í Grímseyjaskóla næsta vetur. Þrír nemendur stunduðu nám við grunnskólann í vetur og tveir í leikskóla en ein fjölskylda er að flytja burt úr eyjunni og eftir verða sitt hvor nemandinn á leikskóla- og grunnskólaaldri.

Vikudagur greindi frá því að fræðsluráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að fella niður skólahald í Grímseyjarskóla tímabundið veturinn 2019-2020 meðan ekki eru fleiri nemendur skráðir í skólann, en gera jafnframt ráð fyrir að sú ákvörðun verði endurskoðuð fyrri hluta árs 2020 fyrir skólaárið 2020-2021.

Nemandinn sem eftir verður hefur nám í 9. bekk og fellur hann undir reglur um skólagöngu nemenda í 9. og 10. bekk í Grímsey en nemendur í þeim bekkjum sækja skóla að eigin vali á Akureyrarsvæðinu.

Karen Nótt Halldórsdóttir, skólastjóri Grímseyjarskóla, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða mikla sorgarfréttir en við þessu hafi verið búist. Hún er hins vegar bjartsýn um framhaldið. „Ég vonast til að skólastarfið hefjist aftur sem fyrst. Aðstaðan er til staðar, öll námsgögn og kennslugögn. Það er ekki verið að leggja niður skólann, það er verið að fella niður skólastarf í þennan vetur.“

Óvenjuleg staða er á sama tíma kominn upp í leikskólanum í Grímsey þar sem aðeins eitt barn á leikskólaaldri verður búsett í eyjunni næsta vetur. „Ég býst ekki við því að það verði rekinn leikskóli fyrir eitt barn,“ segir Karen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert