Á útvarpið sér einhverja framtíð?

Thomas Hjelm, yfirmaður stafrænna mála hjá bandaríska almannaþjónustuútvarpinu NPR, kvaðst …
Thomas Hjelm, yfirmaður stafrænna mála hjá bandaríska almannaþjónustuútvarpinu NPR, kvaðst bjartsýnn á framtíð útvarpsins. mbl.is/Eggert

Framtíð útvarps var til umræðu á málþingi sem Ríkisútvarpið stóð fyrir í Efstaleiti síðdegis í dag. Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagði við upphaf málþingsins að æ fleiri heimsendaspámenn væru byrjaðir að boða endalok línulegs útvarps eins og við þekkjum það, vegna hlaðvarpsbyltingarinnar sem hefur breytt því hvernig stór hluti neytenda – sérstaklega þeir sem yngri eru – neyti útvarpsefnis.

Magnús Geir sagði það þó vera svo að línulegt útvarp stæði enn traustum fótum og nefndi meðal annars að hlustun á Rás 1 hefði ekki verið jafn mikil í 20 ár, en að Ríkisútvarpið hefði þrátt fyrir það breytt um stefnu til þess að laga sig að breyttum heimi og nú væri það orðið svo hjá ríkisfjölmiðlinum að ólínuleg dagskrá væri sett í jafn mikinn forgang og sú línulega.

Tveir erlendir gestir, þeir Thomas Hjelm, yfirmaður stafrænna miðla hjá bandaríska almannaþjónustuútvarpinu NPR, og Joel Westerholm, sérfræðingur hjá fréttastofu sænska ríkisútvarpsins SR, deildu reynslu sinni af þróunarstarfi innan sinna miðla við að færa útvarpsefni, línulegt og ólínulegt, til hlustenda í gegnum þær fjölmörgu dreifingarleiðir sem nú standa til boða.

Fundurinn var haldinn í myndveri Ríkisútvarpsins og var vel sóttur.
Fundurinn var haldinn í myndveri Ríkisútvarpsins og var vel sóttur. Ljósmynd/Kolbrún Vaka Helgadóttir

NPR, sem stofnað var árið 1967, nær í dag til 105 milljóna hlustenda í mánuði hverjum með línulegri útvarpsdagskrá sinni sem send er út í gegnum 263 staðbundnar útvarpsstöðvar í Bandaríkjunum og 20 milljón hlaðvarpsáskrifendur hlusta á þætti sem stöðin framleiðir í hlaðvarpi. Almannaþjónustuútvarpið gefur út fjölmarga vandaða þætti, sem hafa verið ofarlega á vinsældalistum í hlaðvarpsheiminum og er það nýlunda, sagði Hjelm, að almannaþjónustuútvarpið upplif'ði viðlíka vinsældir.

Eyddu ári í að samræma sig við Alexu

Starf Hjelm hjá NPR snýst að miklu leyti um það að koma efni stöðvarinnar inn í allar þessar nýju dreifingarleiðir sem eru að verða til. Hann nefndi sem dæmi að 23% allra bandarískra heimila ættu í dag snjallhátalara sem hægt er að gefa raddskipanir um að spila ákveðna hluti og þar er Alexa, hátalarinn frá stórfyrirtækinu Amazon, vinsælastur.

Sem dæmi um vinnuna sem það kostar NPR að koma sínu efni á framfæri á einstökum stöðum nefndi Hjelm að hans fólk hefði eytt heilu ári í að vinna með Alexa-teyminu hjá Amazon, til þess að tryggja að ef að þú sem notandi myndir biðja Alexu að hlusta á NPR með raddskipun myndi Alexa byrja að spila NPR. Snjallhátalarinn Alexa er svo bara ein af mörgum dreifingarleiðum sem NPR þarf að nýta til þess að dreifa sínu efni ólínulega.

Verðum að leggja áherslu á íslenska raddstýringu

Ef þetta hljómar eins og það gæti verið flókið mál að eiga við, þá skal minnt á að við Íslendingar getum að afar takmörkuðu leyti talað við tækin okkar á íslensku. Það gæti því liðið nokkur tími þar til hægt verður að segja: „Alexa, spilaðu Viðskiptapúlsinn“ og fá hlaðvarp ViðskiptaMoggans beint í gang í hátalaranum eða öðrum tækjum.

Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrverandi þróunarstjóri hjá Google, hélt erindi á málþinginu um nákvæmlega þetta, en hann hefur nýlega snúið aftur til landsins eftir að hafa verið yfir vöruþróun á Google Assistant-hátalaranum um fjögurra ára skeið. Hann sagði að drifkraftur síðustu áratuga, varðandi vöruþróun í tækniheiminum, væri að gera tæknina svo einfalda að þú þyrftir ekki að gera neitt til að læra á hana og að stefnt væri að því markmiði að tæknin yrði eins og við, mannfólkið. Tæki og tól sem hægt verður að tala við eru hluti af þessari þróun og því segir Guðmundur mikilvægt að Íslendingar leggi mikla áherslu á að tæki skilji íslensku.

Guðmundur Hafsteinsson, fyrrverandi þróunarstjóri hjá Google, sagði ógn steðja að …
Guðmundur Hafsteinsson, fyrrverandi þróunarstjóri hjá Google, sagði ógn steðja að íslenskunni ef ekki verði hægt að ræða við tölvur á íslensku. Ljósmynd/Kolbrún Vaka Helgadóttir

Ísland er lítið samfélag, sagði Guðmundur, og því aftarlega á merinni þegar alþjóðleg stórfyrirtæki eru að þýða háþróaða tækni eins og raddstýringarbúnað. Hann sagði þó að við gætum hagnýtt okkur smæðina með því að sýna þessum fyrirtækjum, með einbeittum aðgerðum, að hér á landi gætu verið kjöraðstæður til þess að prófa nýja tækni.

Verður hægt að skipa Brodda fyrir

Eftir erindi sitt fékk Guðmundur til sín upp á svið Jón Pál Leifsson, sem hefur að undanförnu unnið að nýju íslensku snjallsímaforriti sem gerir fólki kleift að láta lesa fyrir sig fréttir Ríkisútvarpsins með raddstýringu.

Forritið mun heita Broddi og verður hægt að skipa því fyrir með raddstýringu. Hægt verður að spóla fram og til baka í fréttatímanum, hlaupa yfir fréttir og byrja á næstu – og fleira – með því að segja skipanir á við: „Broddi, næsta“ en styrkur fékkst hjá Rannís til þess að þróa forritið.

Guðmundur sagði að þróun Brodda væri „rosalega mikilvægt skref“ og það væri gott að verið væri að fara af stað í íslensku máltækninni með þessu verkefni og svo með Almannarómi, sem er sjálfseignarstofnun sem hefur það markmið að stuðla að smíði máltæknilausna á íslensku og var ítarlega fjallað um hér á mbl.is í síðasta mánuði.

Sænska leiðin til að hlusta á útvarpsfréttir

Svíar glíma að nokkru leyti við það sama og við, að sænsk raddstýring virkar ekki sem skyldi í öllum tækjum, en sænska ríkisútvarpið SR, sem er einungis útvarpsmiðill, hefur að undanförnu lagt mikið í að koma fréttum sínum á framfæri á nýjan máta á vefnum og í hlaðvarpsforriti sínu.

Ákvörðunin var tekin af því að „við erum hljóðmiðill“, sagði Joel Westerholm, en nú er SR með hlaðvarp í snjallsímaforriti sínu, þar sem hægt er að nálgast stuttar hljóðútgáfur af öllum fréttum auk þess sem hljóðútgáfa fylgir öllum fréttum sem rata inn á vef SR.

Magnús Geir Þórðarson, Joel Westerholm frá SR og Rakel Þorbergsdóttir …
Magnús Geir Þórðarson, Joel Westerholm frá SR og Rakel Þorbergsdóttir á fundinum í dag. Ljósmynd/Kolbrún Vaka Helgadóttir

Þetta er hægt og rólega að breyta því hvernig að minnsta kosti hluti Svía nálgast þær fréttir sem ríkisútvarpið framleiðir, en Westerholm deildi því með áheyrendum að í hverjum mánuði væru um milljón fréttir opnaðar í gegnum hlaðvarpið þeirra, af um 75.000 notendum.

Sagði Westerholm að helsta vandamálið væri að kenna notendum að venjast því að nota hlaðvarpið, en vöxturinn í notkuninni hefði verið stöðugur og að þau hjá SR yrðu ánægð ef hann myndi halda áfram af sama krafti á síðustu misserum.

Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, sagði í samtali við Westerholm eftir erindi hans að það væri mikilvægt fyrir RÚV að læra af reynslu annarra ríkisfjölmiðla eins og SR og viðurkenndi að RÚV mætti gera meira til þess að koma fréttaefni sínu til skila.

„SR er ljósárum á undan okkur,“ sagði Rakel og sagði að stofnunin gæti spýtt í lófana og þyrfti að finna leiðir til þess að koma útvarps- og sjónvarpsefni sínu betur á framfæri á gagnvirkan hátt.

Málþingið, sem bar yfirskriftina Framtíð útvarps - samtal um tækni, tungu og nýjar miðlunarleiðir, má horfa á í heild sinni hér að neðan. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert