Ásetningur „einarður“ og brotin „alvarleg og óvenjuleg“

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Ásetningur karlmanns á þrítugsaldri, sem var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir nauðgun, blekkingu og kúgun er sagður „einarður“ og brotin eru bæði „alvarleg og óvenjuleg,“ að því er segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness yfir manninum.

Hann hafði á 20 mánaða tíma­bili villt á sér heim­ild­ir í sam­skipt­um við konu á sam­fé­lags­miðlin­um Snapchat, fengið hana til að senda sér nekt­ar­mynd­ir og notað þær til að kúga hana til kyn­maka með öðrum mönn­um og nauðgað henni í tvígang á hóteli þar sem hún var með bundið fyrir augun og bundnar hendur. 

„Ákærði lék tveimur skjöldum í samskiptum sínum við brotaþola um lengri tíma. Ákærði kom annars vegar fram við brotaþola með blekkingum sem raunverulegur maður sem hann vissi að brotaþoli var hrifin af og hins vegar á sama tíma sem hann sjálfur, trúnaðarvinur brotaþola.“ Þetta segir í dómnum. 

Maðurinn nýtti sér samskiptamiðilinn Snapchat í samskiptum sínum við konuna. Erfitt og nánast ómögulegt er að afla sönnunargagna frá miðlinum eftir á. Hann nýtti sér einnig leyninúmer til að hafa samband við hana og faldi því slóð sína.

Fékk ekki frið dag og nótt 

Maðurinn og konan kynntust í framhaldsskóla og urðu vinir. Eftir eitt og hálft ár hófust samskipti þeirra á Snapchat en þá notaði maðurinn nafn annars manns, manns sem stúlkan vissi vel hver var, í samskiptum sín á milli. Fyrir dómi sagði hann ástæðuna hafa verið „hugsunarlaust grín“. Þetta var í lok árs 2015. 

Sama ár gaf hinn ákærði konunni dýrt úr í afmælisgjöf. Hún furðaði sig á því þar sem henni fannst þau ekki hafa verið svo góðir vinir. 

Á svipuðum tíma hófust samskipti þeirra á Snapchat þar sem maðurinn lék tveimur skjöldum. Fljótlega fékk hún beiðnir um að senda af sér myndir og hafi ekki fengið frið, hvorki dag né nótt. „Samskiptin hefðu byrjað sakleysislega en stöðugt orðið grófari. Hún hefði verið farin að senda honum myndir af sér, allt að nakinni. Ákærði hefði hins vegar ekki sent henni myndir af sér. Kvaðst brotaþoli ekki hafa óskað eftir slíku,“ segir í dómnum. 

Fljótlega eftir þetta sagðist hann vera hættur með kærustunni og bað hana um að hitta sig á hótelherbergi. Þar faldi hann sig inni á baði, hún var með bundið fyrir augun og hann nauðgaði henni. Þetta gerðist í tvígang. 

Konan lýsir því að maðurinn hafi oft verið reiður og í raun stjórnað henni. Hún óttaðist hann og var hrædd um að hann myndi dreifa myndum af henni ef hún gerði ekki eins og hann sagði. 

„Hann hefði hrósað sér og rifið niður til skiptis og ítrekað hótað að birta af henni myndir ef hún gerði ekki eins og hann segði. Þannig hefði hann fengið hana til að hitta mann í bílakjallara, sem hún hefði veitt munnmök og tekið upp á Snapchat og sent ákærða.“ Þetta segir í dómnum. 

Greindu breytta hegðun hennar

Í maí 2017 greinir brotaþoli samstarfsfélaga sínum frá brotunum og fylgdi hann henni á Bjarkarhlíð, miðstöð þolenda ofbeldis, og daginn eftir er málið kært til lögreglu. Þegar málið kemur inn á borð lögreglu kemur í ljós að maðurinn hafði leikið tveimur skjöldum. 

Samstarfsfélagar konunnar tóku eftir breyttri hegðun hennar á stuttum tíma. Þeir lýsa því að hún hafi „misst gleði sína“ og „fundist vera að fjara undan“ henni, „hún hefði grátið mikið og mætt seint og illa til vinnu“.

Í skýrslu sálfræðings segir meðal annars að hún sýni„ kvíðaeinkenni og alvarlegt þunglyndi. Áfallastreituröskun hefði mælst mikil og sömuleiðis lágt sjálfsmat.“ Konan á ekki aðra sögu um áfallasögu en þessa sem hún hefur greint frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert