Hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók í dag þátt í ráðstefnu um viðskipti á norðurslóðum sem haldin var í sendiráði Íslands í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu og efnahagshvatar og fjárfestingar á norðurslóðum voru aðalefni ráðstefnunnar, sem bar yfirskriftina Doing Business in the Arctic. Ráðstefnan, sem er fyrsti viðburðurinn sem tengist formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, var skipulögð af Íslensk-ameríska viðskiptaráðinu í Bandaríkjunum, sendiráði Íslands í Washington, Efnahagsráði norðurslóða og Wilson Center's Polar Institute í Washington. Þátttakendur voru bæði úr einkageiranum og opinbera geiranum frá Bandaríkjunum, Íslandi, Grænlandi og Noregi,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Þá segir að í Bandaríkjunum sé mikill áhugi á fjárfestingum á norðurslóðum, þar á meðal á Íslandi, en undanfarin fimm ár hafi rúmur þriðjungur erlendra fjárfestinga á Íslandi komið þaðan. „Þá hafa íslensk fyrirtæki aukið umsvif sín á svæðinu undanfarin ár, til dæmis í sjávarútvegi í Alaska og fraktflutningum til og frá Grænlandi. Áætluð fjárfestingaþörf á norðurslóðum er talin nema um eitt þúsund milljörðum Bandaríkjadala og því ljóst að um veruleg tækifæri er að ræða, ekki síst á sviði innviðauppbyggingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert