Samstillts átaks er þörf

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir á fundinum í …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir á fundinum í morgun. Morgunblaðið/Hari

Biðtími eftir liðskiptaaðgerðum verður ekki styttur með því einu að fjölga slíkum aðgerðum. Til að ná árangri þarf samstillt átak heilbrigðisyfirvalda, Embættis landlæknis og heilsugæslunnar. Þriggja ára átak, sem átti að stytta bið eftir þessum aðgerðum, bar ekki tilætlaðan árangur. Landlæknir leggur m.a. til að þessum aðgerðum verði útvistað tímabundið. 

Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi sem haldinn var í morgun þar sem kynntar voru niðurstöður skýrslu Embættis landlæknis um árangur af biðlistaátakinu.  „Biðtíminn hefur vissulega styst,“  sagði Alma Möller landlæknir á fundinum. „En ekki eins og vonir stóðu til.“

Þetta var þrátt fyrir að aðgerðatíðni hefði aukist á þessu tímabili og að nú væru gerðar, að sögn Ölmu, 230 aðgerðir á hnjám og mjöðmum á hverja 100.000 íbúa hér á landi. Samið var um 911 „átaksaðgerðir“ á þessu tiltekna tímabili, framkvæmdar voru 827 aðgerðir og því voru 84 aðgerðir, eða 9% fyrirhugaðra aðgerða sem ekki tókst að gera.

Fráflæðisvandinn ein ástæðan

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði að þessar tölur endurspegluðu þann vanda sem Landspítali hefur lengi glímt við; sem er skortur á legurýmum sem má að stórum hluta rekja til fráflæðisvandans sem myndast þegar aldrað fólk, sem bíður úrræða á borð við hjúkrunarheimili, dvelur langtímum á sjúkrahúsinu þar sem mikill skortur er á hjúkrunarrýmum. Alma sagði að önnur ástæða fyrir því að ekki tókst betur til með átakið væri að eftirspurn eftir liðskiptaaðgerðum hefði vaxið hraðar en reiknað hefði verið með.

Landlæknir fór í hnjáskiptaaðgerð

„Þegar biðlistaátakið var hannað voru gefnar ákveðnar forsendur, en þær hafa breyst,“ sagði Alma. „Skýringarnar eru margar, m.a. fjölgun í eldri aldurshópum, sífellt yngra fólk fer í aðgerðirnar og aukin krafa um hreyfigetu,“ sagði Alma og bætti við orðum sínum til áréttingar að sjálf væri hún ekki orðin sextug en hefði þegar farið í hnjáskiptaaðgerð.

„Þá er önnur ástæða að offita eykst og slit í mjöðmum virðist algengara hér en í öðrum löndum,“ sagði Alma.

Heildarverkefni heilbrigðisþjónustunnar

Í kjölfar birtingar skýrslunnar tekur við vinna þar sem heilbrigðiskerfið verður skoðað í heild sinni til að finna leiðir til að stytta bið eftir liðskiptaaðgerðum. Til dæmis mun heilbrigðisráðherra funda síðar í dag með forstjórum heilbrigðisstofnana um málið. „Þetta er heildarverkefni heilbrigðisþjónustunnar allrar og við munum setja saman aðgerðaáætlun þar sem fundnar verða lausnir til skemmri og lengri tíma. Mér finnst t.d. mikilvægt að leggja meiri áherslu á heilsugæsluna, sem gæti t.d. undirbúið fólk betur undir þessar aðgerðir þannig að það þurfi að liggja skemur á sjúkrahúsum og verði fljótara að ná sér. Við höfum talað um forhæfingu í þessu sambandi,“ segir Svandís.

Skoða tímabundna útvistun

Í skýrslunni leggur landlæknir til að ef ekki takist að fjölga liðskiptaaðgerðum á þeim sjúkrahúsum þar sem þær eru nú framkvæmdar verði þeim útvistað tímabundið til einkaaðila í heilbrigðisrekstri.

Spurð hvort hluti lausnarinnar gæti m.a. falist í þessu segir Svandís að það sé eitt af því sem sé til skoðunar. „Mér finnst þó skjóta skökku við að útvista þessum aðgerðum á meðan Landspítali er að sinna umönnun langlegusjúklinga og aldraðra sem færi betur um á hjúkrunarheimilum. Þannig að við myndum líklega fyrst skoða hvort hægt væri að útvista slíkri þjónustu í meiri mæli, áður en við færum að bjóða út flóknari þjónustu. Þetta er eitt af því sem þarf að fara yfir, en það er ljóst að það verður ekki farið í neitt slíkt á þessu ári. Það eru einfaldlega ekki til peningar til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert