Líkamsáras í gleðskap í Garðabæ

mbl.is/Eggert

Tilkynnt barst lögreglu um líkamsárás í Garðabæ á þriðja tímanum í nótt. Þar hafði staðið yfir gleðskapur í heimahúsi og húsráðandi gert tilraun til þess að vísa mönnum úr partýinu sökum þess að þeir voru að nota fíkniefni.

Mennirnir urðu ósáttir við þetta og réðust á húsráðanda og veittu honum meðal annars áverka í andliti, samkvæmt því sem fram kemur í orðsendingu lögreglu til fjölmiðla um helstu verkefni næturinnar.

Ung stúlka réðst á dyravörð

Af öðrum verkefnum má nefna að laust eftir klukkan fjögur í nótt tilkynnti leigubílstjóri, sem staddur var í Hafnarfirði, um að hann hefði orðið fyrir bæði fjársvikum og hótunum í starfi sínu.

Þá þurfti lögregla að hafa afskipti af þremur einstaklingum í slæmu ástandi vegna ölvunar eða annarrar vímu í miðborginni í gærkvöldi, manni, konu og einnig 15 ára stúlku, sem hafði ráðist á dyravörð.

Síðastnefnda málið var afgreitt með aðstoð Barnaverndar og aðkomu forráðamanna stúlkunnar, samkvæmt lögreglu.

Hirtur dópaður á nagladekkjum

Þá voru nokkrir ökumenn teknir í umferðinni, ýmist fullir eða grunaðir um að vera undir áhrifum annarra hugbreytandi efna undir stýri.

Einn sem var hirtur fyrir slíkt í miðbænum í nótt hafði aldrei öðlast ökuréttindi og var að auki kærður fyrir að vera enn með fjögur nagladekk undir bílnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert