Rokkhrokinn settur í aftursætið

Björn Stefánsson hefur fundið sína hillu og er ánægður sem …
Björn Stefánsson hefur fundið sína hillu og er ánægður sem leikari. Hann hefur fyrir löngu sagt skilið við rokklífernið og drykkju en margir muna eftir honum sem Bjössa í Mínus. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Eflaust muna margir eftir Birni Stefánssyni úr eftirminnilegu hlutverki sem fíkill í Lof mér að falla og ekki síður úr Elly þar sem hann bæði lék og mundaði kjuðana. Enn aðrir muna eftir honum sem trommara í Mínus; þungarokkshljómsveit sem gerði það gott um aldamótin. 

En Mínus-árin tilheyra nú fortíðinni. Síðustu ár hefur Björn helgað sig leiklistargyðjunni. Hann er fastráðinn leikari hjá Borgarleikhúsinu en hefur auk þess tekið að sér hlutverk í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þessi 38 ára gamli leikari og tónlistarmaður hefur lifað tímana tvenna; föðurmissir og alkóhólismi hafa verið verkefni að glíma við.

Trommuleikari eins og ég

Björn segist hafa alist upp víða, þó helst í Breiðholti og Mosfellssveit. Blaðamaður byrjar á því að spyrja hvernig krakki hann hafi verið.

„Foreldrar mínir skildu þegar ég var þriggja ára og pabbi minn lést þegar ég var tólf. Þetta var mjög skrítinn tími og ég átti erfið unglingsár,“ segir hann en faðir hans lést úr krabbameini aðeins 46 ára.

„Hann var mjög vel liðinn af öllum; var trommuleikari eins og ég og spilaði með hljómsveitinni Dátum og með Ragga Bjarna í heil 15 ár og fór svo í fyrirtækjarekstur. Hann hét Stefán Jóhannsson og var mjög góður maður. Það var erfitt að missa hann úr lífi sínu,“ segir Björn, sem hafði dvalið mikið hjá honum um helgar.

„Ég var á B5 man ég í einkapartíi og ég …
„Ég var á B5 man ég í einkapartíi og ég fór inn á baðið í annarlegu ástandi og horfði á mig í speglinum og á þeirri stundu vissi ég að þetta væri orðið gott. Nú yrði ég að hætta. Ég fann það svo sterkt,“ segir Björn, sem hefur nú verið edrú í áratug. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

 „Þetta var svo óraunverulegt allt saman þegar hann dó. Svo er tekið allt öðruvísi á þessum málum í dag en þá; það var meiri harka. Eftir á að hyggja held ég að fólk hafi ekki vitað hvernig það átti að haga sér,“ segir Björn sem á þessum tíma bjó hjá móður sinni og stjúpa. 

Skammast mín ekki lengur

„Ég ólst upp við alkóhólisma á heimilinu. Ég man þegar ég var lítill þá gat ég ekki beðið eftir að verða fullorðinn til að geta komist í burtu. Þetta voru furðulegar uppeldisaðstæður; að vera orðinn föðurlaus og vera á heimili þar sem alkóhólismi umlykur heimilið. Þótt það hafi ekki alltaf verið drykkja, þá vissi ég aldrei hvernig ástandið var heima hjá mér. Maður lærði bara að halda sig til hlés ef það leit út fyrir að allt myndi fara í rugl. Fósturfaðir minn var alltaf að reyna að vera edrú en sótti alltaf aftur í drykkjuna og samband hans við mömmu var afar brösótt. Á endanum fjaraði samband þeirra út og hann dó svo á endanum úr alkóhólisma fyrir ekki svo löngu. Ég söng í jarðarförinni hans og mér þótti mjög vænt um það,“ segir Björn og nefnir að uppvaxtarárunum hafi fylgt mikill kvíði.

Upplifði drauminn

Fórstu sjálfur að drekka ungur?

„Ég ætlaði aldrei að drekka. Ég ætlaði mér aldrei að verða eins og þessir alkóhólistar í kringum mig. Ég beið með það lengi að drekka og bróðir minn var mér mikil fyrirmynd og setti mér skýrar reglur; hvenær ég ætti að koma heim á kvöldin og að læra heima. Ég var alltaf í hljómsveitum og alltaf að spila á trommur. Þetta var lífið manns. Svo hófst rokklífernið um tvítugt. Hetjurnar mínar á þessum tíma voru hljómsveitargaurar í böndunum sem ég var að hlusta á og drykkja og partí voru bara eitthvað sem fylgdi þessu. Í Mínus fór ég að drekka ótæpilega og hafði ekki venjulegum skyldum að gegna, eins og að vera í háskóla. Ég var bara í hljómsveit,“ segir hann og bætir við að hann hafi aðeins smakkað áfengi á unglingsárunum en gaf hressilega í þegar hljómsveitarlífið hófst fyrir alvöru eftir tvítugt.

„Við stofnuðum Mínus árið 1998 og unnum Músíktilraunir árið eftir. Takmarkið var að spila músík; við fórum í Músíktilraunir með það markmið að vinna og vildum svo fara til útlanda og gefa út plötur,“ segir Björn og segir draumana hafa verið stóra frá byrjun.

„Að vera í þannig hópi er ekki sjálfgefið. Ég þekki það að vera í hljómsveitum en þetta var allt annað. Það var æft alla daga og við héngum alltaf saman. Svo áður en við vissum af vorum við komnir til útlanda að upplifa drauminn.“

Ódauðlegur á þessum aldri

Var þessi lífsstíll eins og í bíómyndunum? Líf í rútu, spilamennska, dóp og drykkja?

„Já, nokkurn veginn. Það var alltaf næsti bær. Þótt maður vildi slaka á þá var alltaf gengið frá eftir gigg og keyrt að næsta bæ og alltaf nóg af fólki sem vildi vera með í partíinu þínu. Það var alltaf partí eftir tónleika, enda var ætlast til þess. Ég áttaði mig á því nokkuð snemma að þetta gæti ekki gengið endalaust. Maður borðaði líka óreglulega og var pottþétt illa nærður og hugsaði ekki vel um sig, enda ódauðlegur á þessum aldri. Við drukkum alveg ótæpilega.“

Björn spilaði á trommur í Mínus og er ekki alveg …
Björn spilaði á trommur í Mínus og er ekki alveg hættur þótt leiklistin sé í fyrsta sæti. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

„Ég man að við héldum tuttugu tónleika í Bretlandi og fórum svo beint til Bandaríkjanna án þess að hvíla okkur. Þar fengum við að vita að það væri ekki hótel í boði heldur áttum við að sofa í „vaninum“ eða á gólfinu hjá fólki sem gat reddað okkur gistingu. Ég svaf iðulega í bílnum og í sófum hér og þar. Í eitt skiptið gisti ég í ógeðslegum sófa í einhverju partíi í suðurríkjunum. Ég man að það var ekkert í stofunni nema þrjú skítug surf-bretti og sófinn sem ég svaf í. Það var einnig risastórt gat í gólfinu af einhverjun ástæðum. Um nóttina var ég svo bitinn í andlitið af kónguló og spilaði restina af túrnum lítandi út eins og fílamaðurinn,“ segir hann og hlær. „Það var mikið svona; stjórnleysi. Á Ítalíu til dæmis sváfum við á geðsjúkrahúsi.“

Horfði í spegil og hætti

Ertu edrú í dag?

„Já, í tíu ár,“ segir hann.

„Mjög snemma á tímum Mínusar var ég farinn að spyrja sjálfan mig af hverju ég gæti ekki drukkið eðlilega; hætt eftir tvo bjóra. Þetta bara ágerðist og konan mín var farin að setja mér stólinn fyrir dyrnar og segja mér að þetta væri ekki í lagi. Ég skil hana alveg núna og þarna vorum við komin með barn. En þegar ég drakk skildi ég hana ekki; fannst ég ekki vera að skemma neitt, mætti í vinnu og var duglegur. En hún fékk bara nóg og sagðist vera að fara til Danmerkur. Ég reyndi að halda mér edrú en það gekk ekkert. Svo fékk ég uppljómum; gat ekki lengur verið að þykjast vera þessi duglegi maður en var svo í raun að fara þunnur með barnið í skólann.“

Björn hætti að drekka og flutti þá til Danmerkur á eftir konunni sinni. Hann fór ekki í meðferð en hefur unnið mikið í sínum málum.

„Ég var búinn að fá aðstoð frá vinum við meðvirkni og var búinn að læra inn á þetta og vinna í mér. Ég var alltaf að hreinsa einhver herbergi í hausnum á mér en það var alltaf sama rýmið sem ég gat ekki hreinsað. Á endanum var það þetta; ég gat ekki hætt að drekka. Ég fékk bara nóg og fékk hjálp frá góðum vinum. Það hvarflar ekki að mér að byrja aftur því ég veit hvar ég mun enda. En þetta var alveg erfitt.“

 Hvar var botninn?

„Ég var á B5 man ég í einkapartíi og ég fór inn á baðið í annarlegu ástandi og horfði á mig í speglinum og á þeirri stundu vissi ég að þetta væri orðið gott. Nú yrði ég að hætta. Ég fann það svo sterkt. Maður hafði oft hugsað það áður, þetta er orðið gott, en alltaf haldið áfram. En í þetta sinn var það öðruvísi. Ég labbaði fram og hitti vin minn og sagði honum að ég væri hættur. Honum fannst það bara fyndið. Ég hringdi líka í konuna og sagði henni að ég væri hættur. Fyrsta árið héldu allir að ég væri að grínast, en síðan eru liðin tíu ár,“ segir hann og segist ekki sjá eftir þessari ákvörðun. Hann segir að sér líði miklu betur og kann betur að meta þær gjafir sem lífið færir honum og þá ábyrgð sem honum er falin.

Lærði leiklist á dönsku

Björn segist hafa gengið með leiklistardrauma í maganum allt frá barnæsku. Bróðir hans hafi sótt leiklistartíma sem unglingur í menntó og fékk Björn til að leika barnahlutverk í menntaskólaleikritum.

„Þetta heillaði mig rosalega en tónlistin tók yfir. Ég átti mér alltaf þennan draum en þorði ekki að segja frá því,“ segir Björn sem loksins lét verða af því að læra leiklist, og það í Danmörku.

Þú ákvaðst sem sagt, nýorðinn edrú, að fara að læra leiklist, og það á dönsku?

„Já, og ég kunni ekkert í dönsku,“ segir hann og brosir. „Ég bjóst ekki við að komast inn, en komst. Við tóku erfiðustu ár lífs míns, þetta var bara martröð,“ segir hann og hlær.

„En þetta heflaði mig. Ég var auðvitað að fríka út af kvíða en þegar ég lít til baka sé ég hvað ég hafði gott af þessu. Teppinu var kippt undan mér og allt sem heitir öryggisnet var tekið frá mér. Ég var algjörlega einn; einn í bekknum sem var útlendingur. Framburðurinn þurfti að vera fullkominn. Svo skildu Danir ekki af hverju ég kom ekki með þeim á barinn að drekka.“

En var þetta ekki skemmtilegt líka?

„Þetta var frábært. Ég eignaðist nýja vini og nýja sýn á lífið. Ég var alltaf að ögra sjálfum mér. Rokkhrokinn í mér var settur í aftursætið því ég var settur í svo fyndnar aðstæður í náminu, eins og að leika geit. Það þarf að brjóta mann niður til þess að hægt sé að byggja mann upp aftur,“ segir Björn og nefnir að hann hefði aldrei farið í svona einlægt blaðaviðtal áður en hann fór í leiklistina og hætti að drekka.

„Þá hefði ég bara sagt að allt væri frábært,“ segir hann. „Maður vill alltaf gera betur og mig langar ekki að fela neitt. Ef ég er einlægur þá hef ég frá mörgu að segja. Ég hef ekki tíma í hitt, mig langar frekar að gefa eitthvað af mér.“

Bara skemmtilegra ef eitthvað er

Síðustu tvö ár hafa verið annasöm hjá Birni og hefur hann verið í vinsælum verkum sem farið hafa fram úr björtustu vonun, eins og Njálu, Rocky Horror, Matthildi og Elly. „Það eru forréttindi að vinna með þessu fjölhæfa fólki í þessum sýningum, eins og í Elly. Það er ótrúlegt að upplifa það á hverju kvöldi. Fólk spyr hvort það sé stundum leiðinlegt eftir 200 sýningar en það er það alls ekki. Það verður bara skemmtilegra ef eitthvað er,“ segir hann.

Björn er enn að sinna tónlistinni og er sem stendur í hljómsveit sem heitir Skepna ásamt þeim Halli Ingólfsyni og Herði Inga Stefánssyni. Platan Dagar heiftar og heimsku kemur út í júní en Björn ætlar að hvíla sig á tónlistinni eftir það.


„Ég hreinlega get ekki verið í hljómsveit og í fullri vinnu í leikhúsinu þannig að ég ætla að spila á útgáfutónleikunum sem verða á Hard Rock 14. júní og mögulega eitthvað meira í sumar og sjá svo til með framhaldið.“ 

Ítarlegt viðtal er við Björn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert