40 rannsóknarleyfi á virkjunarkostum

40 rannsóknarleyfi voru gefin út á árunum 2009 til 2018.
40 rannsóknarleyfi voru gefin út á árunum 2009 til 2018. mbl.is/RAX

Orkustofnun gaf út fjörutíu rannsóknarleyfi á virkjunarkostum í vatnsafli á árunum 2009 til 2018 og þar af voru fimm leyfi framlenging á eldri leyfum.

Þetta kemur fram í svari Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns Vinstri grænna.

Orkustofnun bendir á að við útgáfu rannsóknarleyfa liggur ekki í öllum tilvikum fyrir hvert mögulegt uppsett afl virkjana kann að verða.

Á árunum 2009 til 2018 gaf Orkustofnun út tvö virkjanaleyfi fyrir vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl yfir 10 MW, þ.e. fyrir Mjólkárvirkjun í Arnarfirði og Búrfellsvirkjun 2. Á sama tímabili voru gefin út sautján virkjunarleyfi fyrir vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl allt að 10 MW. Heildarafl allra virkjunarleyfa í vatnsafli sem voru gefin út á tímabilinu er um 140 MW.

Báðar vatnsaflsvirkjanirnar með uppsett afl yfir 10 MW hafa verið gangsettar, í samræmi við útgefin leyfi. Þau sautján virkjunarleyfi sem veitt hafa verið á tímabilinu fyrir vatnsaflsvirkjanir minni en 10 MW hafa öll leitt til framkvæmda, að því er segir í svarinu.

Orkustofnun hefur veitt sex rannsóknarleyfi vegna virkjunarkosta sem ekki hafa sætt mati samkvæmt rammaáætlun. Vísað er í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þar kemur fram að heimilt er að „veita leyfi tengd orkurannsóknum og stunda orkurannsóknir sem ekki eru leyfisskyldar vegna virkjunarkosta í biðflokki enda séu framkvæmdir vegna þeirra ekki matsskyldar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum eða háðar mati á umhverfisáhrifum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert