Átak í gerð fræðsluefnis um ofbeldi

„Tölfræði UNICEF sýnir með afdráttarlausum hætti að við höfum ekki …
„Tölfræði UNICEF sýnir með afdráttarlausum hætti að við höfum ekki verið að setja börn í fyrsta sæti í samfélaginu.“ mbl.is/G.Rúnar

Félags- og barnamálaráðherra hefur lagt til átak í gerð fræðsluefnis um ofbeldi gegn börnum og tilkynningaskyldu í barnavernd sem sérstaklega verður aðlagað að starfsfólki leikskóla.

Er tillagan meðal aðgerða í fimm liðum til að bregaðst við tölfræði UNICEF, sem gefin var út í síðustu viku, um að 16,4% barna á Íslandi verði fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn. 

„Þó margt hafi breyst til betri vegar á síðustu árum vantar enn mikið upp á. Tölfræði UNICEF sýnir með afdráttarlausum hætti að við höfum ekki verið að setja börn í fyrsta sæti í samfélaginu og það er óviðunandi að stjórnvöld séu ómeðvituð um þær aðstæður sem börn búa við. Við þurfum að vita hvernig þeim líður og hvernig búið er að þeim til þess að geta brugðist við. Það er grundvallarforsenda þess að hægt sé að byggja upp samfélag þar sem börn eru sannarlega í forgrunni,“ segir Ásmundur Einar Daðason.

Upplýsingamiðstöð um ofbeldi komið á fót

Hinar aðgerðirnar fela í sér tilraunaverkefni í samvinnu við sveitarfélög þar sem áhersla verður á hvernig megi greina upplýsingar sem benda til óviðunandi aðstæðna barna þvert á kerfi og tilraunaverkefni sem hefur það að markmiði að koma á markvissri mælingu á velferð barna á ákveðnu svæði.

Þá stendur til að koma á fót upplýsingamiðstöð undir forystu félagsmálaráðuneytisins með það hlutverk að halda utan um upplýsingiar, rannsóknir, tölfræði og fleira er varðar ofbeldi gegn börnum. 

Ásmundur Einar segir UNICEF á Íslandi hafa vakið athygli á því að ofbeldi sé ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. „Þjóðin öll virðist slegin yfir þeim tölum sem fyrir okkur liggja og nú er mikilvægt að bregðast við. Aðgerðirnar sem hér eru kynntar eru liður í því en auk þess þarf að ráðast í heildarendurskoðun og endurskipulagningu á samfélaginu þar sem börn eru raunverulega sett í fyrsta sæti.”

Nánar má lesa um tillögur félags- og barnamálaráðherra á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert