Fær ekki að heita Elín Kona

Elín Eddudóttir fær ekki að heita Elín Kona Eddudóttir. Elín …
Elín Eddudóttir fær ekki að heita Elín Kona Eddudóttir. Elín segir baráttuna fyrir nafninu snúast um jafnréttissjónarmið og segir það sæta furðu að karl megi heita Karl en kona megi ekki heita Kona. Ljósmynd/Aðsend

„Mér finnst bara skrýtið að kona megi ekki heita Kona en karl megi heita Karl,“ segir Elín Eddudóttir, sem fékk í gær synjun frá mannanafnanefnd við beiðni sinni að fá að bera millinafnið Kona. Fjallað var um úrskurðinn og ósætti Elínar við hann á vef RÚV í morgun. Elín telur rökstuðning nefndarinnar óljósan og hefur óskað eftir frekari skýringum frá nefndinni.

Elín er ekki sú fyrsta sem sækir um að bera millinafnið Kona og það var einmitt viðtal við Kristbjörgu Konu Kristjánsdóttur, sem birtist á Vísi árið 2014, sem varð kveikjan að því að Elín sótti einnig um að fá að bera millinafnið Kona. Kristbjörg hefur tvisvar sinnum fengið synjun frá mannanafnanefnd.

Elín hefur oft verið spurð hvort hún heiti „bara Elín?“ og þegar hún las umrætt viðtal ákvað hún að slá til og sækja um. „Mér finnst þetta flott millinafn og langar að hafa það,“ segir Elín, sem stóð jafnframt í þeirri trú að eftir því sem fleiri sækja um nafnið væru líkurnar meiri á að fá nafnið samþykkt. „Þetta er ellefu árum seinna, maður hefði kannski haldið að jafnréttissamfélagið væri orðið eitthvað annað, að það væri orðið jafnara, en það virðist ekki vera.“

Snýst um jafnréttissjónarmið

Elín vakti athygli á synjuninni í hópnum Femínistaspjallinu á Facebook. Elín er femínisti og tók meðal annars þátt í stofnun Femínistafélags Pírata. Hún segir nafnabreytinguna snúast um jafnréttissjónarmið. „Út frá þeim sjónarmiðum lét ég líka breyta nafninu mínu úr Finnbogadóttir í Eddudóttir því að mér fannst rétt að mamma fengi seinni fimmtíu árin.“

Í úrskurði nefndarinnar segir að millinafnið Kona brjóti gegn 5. grein laga númer 45/1996 og því geti nefndin ekki fallist á það. Í lagagreininni segir meðal annars að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu og hafa unnið sér hefð í íslensku máli.

„Ég er ekkert hætt“

Í úrskurðinum segir jafnframt að orðið kona sé samnafn og notað um kvenmann á ákveðnum aldri. Ekkert ákvæði banni þetta berum orðum og nokkur orð í þessum merkingarflokki sem tákni manneskju á mannanafnaskrá og í Þjóðskrá, svo sem Karl, Sveinn og Drengur, en þau eigi sér langa sögu í tungumálinu. Hins vegar hafi orðin maður, piltur, strákur, karlmaður, kvenmaður, kona, kerling, mær, stúlka og stelpa ekki verið notuð sem eiginnöfn og verði að teljast að nöfn af því tagi séu ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hafi sér hefð í íslensku máli og brjóti gegn íslensku málkerfi.

„Þau segja að það sé ekkert í lögunum sem banni mér að heita þetta, en samt ætla þau að banna mér það,“ segir Elín, sem sendi mannanafnanefnd bréf í gær, strax eftir að beiðni henni var synjað.

„Ég er ekkert hætt, ég ætla að fá þetta í gegn,“ segir Elín Kona Eddudóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert