Kulnun viðurkennd sem sjúkdómur

Sífellt fleiri hafa orðið fyrir kulnun í starfi á síðustu …
Sífellt fleiri hafa orðið fyrir kulnun í starfi á síðustu árum. mbl.is/Thinkstock

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur í fyrsta skipti skilgreint kulnun sem sjúkdóm. Ákvörðun þessa efnis var tekin á ráðstefnu stofnunarinnar í Genf sem lauk í gær.

Þórólfur Guðnason, starfandi landlæknir, segir í samtali við Morgunblaðið að þessar vendingar hafi ekki verið ræddar hjá Embætti landlæknis. Hann kveðst ekki telja að þessi nýja skilgreining þurfi endilega að fela mikið í sér.

„Þetta er nýtt og þetta þarf að skoða. En þetta getur orðið til bóta því hér eftir er hægt að fylgjast með þróuninni og skrá hana með stafrænum hætti. Svo er auðvitað alltaf spurning um hvað eigi að kalla sjúkdóma, hvaða frávik á litrófi mannlegrar hegðunar séu sjúkdómar. Það þarf ekki endilega að líta á allt þetta sem sjúkdóma, kannski frekar skráningarmál svo hægt sé að fylgjast með.“

Getur þessi skilgreining til að mynda þýtt að fólk geti fengið örorkubætur vegna umræddra sjúkdóma?

„Nei, þetta felur ekki slíkt í sér. Það eru til ótal sjúkdómar og þúsundir flokkana á sjúkdómum, vandamálum og heilkennum. Það þarf ekki að þýða bótaskyldu. Þetta er miklu fremur hugsað til að fylgjast með faraldsfræði sjúkdóma og einkenni þeirra, að menn geti fylgst með milli landa og tímabila.“

Hann segist ekki vita hvort þessir nýju sjúkdómar hafi enn fengið sjúkdómaflokkun, svokallað ICD-númer (International Classification of Diseases). „Þetta krefst þá þess að heilbrigðisstarfsmenn gefi hverju heilkenni sjúkdómsgreiningu sem fer þá inn í grunn embættisins svo hægt sé að fylgjast með því.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert