Skilaboð út á við geta skipt miklu máli

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar segir niðurstöðu væntanlega um réttmæti meintra …
Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar segir niðurstöðu væntanlega um réttmæti meintra hópuppsagna á þremur hótelum í Reykjavík gagnvart kjarasamningum. mbl.is/Hari

Rætt var efnislega um ásakanir Eflingar á hendur Árna Vali Sólonssyni um vanefndir á lífskjarasamningnum á fundi Eflingar og SA í gær. Ekki fékkst niðurstaða um hver afstaða SA verði en hennar er að vænta.

„Ég held að aðilar hafi verið sammála um að í þessu máli geta skilaboð út á við skipt miklu máli,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is „Við vorum fyrst og fremst að kalla eftir afstöðu SA í málinu. Hún er ekki að öllu leyti komin fram enn þá en við bindum vonir við að hún muni gera það,“ segir hann.

„Við munum sjá meira afgerandi niðurstöðu eftir helgi,“ segir Viðar.

Fundurinn stóð í klukkutíma. „Það fór fram ágæt efnisleg umræða um þessi álitamál og ágreiningsmál,“ segir Viðar um efni fundarins. Að sögn hans fara nú báðir aðilar, Efling og SA, og vinna úr því sem kom fram á fundinum.

Málið snýst um að Efling sakar Árna Val Sólonsson, sem rekur þrjú hótel í Reykjavík, um að fara í hópuppsagnir í kjölfar lífskjarasamningsins. Það segir Efling brjóta á samningnum. „Við ræddum skilning okkar á hvað felst í efndum lífskjarasamningsins,“ segir Viðar um fundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert