45 milljónir í menntamál eftir fall WOW

Samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í dag að veita 45 milljónum …
Samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í dag að veita 45 milljónum kr. til fyrri hluta aðgerðaráætlunar til að efla menntaúrræði á Suðurnesjum. Aðgerðirnar eru liður í viðbrögðum stjórnvalda við gjaldþroti flugfélagsins WOW air í lok mars. mbl.is/Sigurður Bogi

Samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í dag að veita 45 milljónum kr. til fyrri hluta aðgerðaáætlunar til að efla menntaúrræði á Suðurnesjum. Aðgerðirnar eru liður í viðbrögðum stjórnvalda við gjaldþroti flugfélagsins WOW air í lok mars.

Stofnaður var starfshópur í apríl sem átti að meta hvaða aðgerðir skyldi ráðist í til að mæta áfalli því sem fall flugfélagsins gæti haft í för með sér fyrir íbúa á Suðurnesjum. Þar misstu hlutfallslega flestir vinnuna í kjölfar gjaldþrotsins.

Þessar 45 milljónir fara aðeins í fyrri hluta aðgerðaráætlunar á svæðinu. Ekki liggur fyrir hvernig seinni hlutinn verður.

Markmiðið með verkefninu er, auk þess að efla menntamál á svæðinu, að mæta íbúum þeim sem þurfa á félagslegri þjónustu, sálgæslu eða náms- og starfsráðgjöf að halda, til dæmis eftir að hafa misst vinnuna. 

Sérstök áhersla verður lögð á að leysa úr iðjuleysi yfir sumarmánuðina, til að mynda með sumarstarfsemi menntastofnana á svæðinu. Þá er miðað að því að ekkert fall verði í þátttöku barna og ungmenna í frístundastarfi, tónlistarnámi og íþróttastarfi.

Tryggja á að aðgengi að námi á öllum skólastigum sé fyrir hendi á svæðinu. Sömuleiðis á að þjónusta fólk með annað móðurmál en íslensku.

„Með menntun stuðlum við að framþróun og uppbyggingu og þegar mæta þarf áskorunum af þessu tagi horfum við sérstaklega til aðgerða sem skapað geta tækifæri til framtíðar. Það er fjölbreytt námsframboð á Suðurnesjum og fræðsluaðilar þar vinna frábært starf, við það viljum við styðja,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert