Undirrita samning um grænar lausnir

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við undirritun samningsins ásamt fulltrúum Háskólans …
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við undirritun samningsins ásamt fulltrúum Háskólans í Reykjavík, Orkuklasans og GRP ehf.

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirritaði í dag samning við Háskólann í Reykjavík, Orkuklasann og GRP ehf. um samstarf á sviði sjálfbærni, orku, nýsköpunar og loftslagsmála.

Fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu að undanfarin ár hafa íslenski Orkuklasinn og GRP ehf., ásamt stjórnvöldum, verið í samstarfi við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum með það að markmiði að vinna að þekkingaryfirfærslu í orkumálum og sjálfbærni, auk samstarfs í vísindarannsóknum og menntamálum.

Með samningnum er efnt til áframhaldandi samstarfs við Cornell-háskóla til næstu fjögurra ára og er markmiðið að samstarfið muni leiða af sér aukin tækifæri í nýsköpun, þekkingaryfirfærslu, sjálfbærni, grænum orkulausnum og verðmætaaukningu fyrir íslenskt samfélag.

Tækifæri á sviði nýsköpunar, orku, sjálfbærni og loftslagsmála

„Í samstarfinu felast fjölmörg tækifæri á sviði nýsköpunar, orku, sjálfbærni og loftslagsmála og má þar nefna greiningu á tækifærum nýsköpunar í grænni tækni á Íslandi og úttekt á sjálfbærni Íslands í ákveðnum geirum,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í tilkynningu.

Í samningnum er kveðið á um fjölda verkefna, meðal annars undirbúning úttekta á sjálfbærni Íslands auk úttektar á orkukerfi Íslendinga, landbúnaðarkerfi og sjávarútvegskerfi. Þá stendur einnig til að greina tækifæri nýsköpunar í grænni tækni á Íslandi, t.d. í orkugeiranum og í sjávarútvegi.

Í samningnum er einnig fjallað um aukið samstarf við Cornell í menntamálum og rannsóknum og frekari tengingar við háskólaumhverfið á Íslandi, auk uppsetningar á námskeiðum um græna orku og sjálfbærni tengt sérstöðu Íslands.

Einnig stendur til að setja upp sjálfbæra miðstöð endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi í samstarfi við Cornell og tengda aðila.

Samstarfsverkefnið er vistað hjá Orkuklasanum en sérstök verkefnisstjórn hefur umsjón með verkefninu undir forystu Háskólans í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert