Hefðbundin leið við Tungnaárjökul lokuð vegna loftslagsbreytinga

Starfsfólk Veðurstofunnar við gasmælingar í Bárðarbungu.
Starfsfólk Veðurstofunnar við gasmælingar í Bárðarbungu. Ljósmynd/Hrafnhildur Hannesdóttir

Tungnaárjökull hefur hopað svo mikið að svæðið fyrir framan hann er orðið ófært farartækjum vegna aurbleytu en þetta er í fyrsta skipti í 66 ára sögu vorferða Jöklarannsóknarfélags Íslands sem það gerist.

Fram kemur á Facebook-síðu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands að vorferðin hafi verið farin árlega frá árinu 1953. Oftast er farið á Vatnajökul úr vestri, um Jökulheima og Tungnaárjökul. Á árunum 1995-1998 var farið um Skálafellsjökul og Jöklasel þar sem Tungnaárjökull var ófær fyrstu árin eftir framhlaup Tungnaárjökuls.

Fram kemur á síðunni að hop Tungnaárjökuls sé bein afleiðing hlýnunar loftslags. 

Tungnaárjökull, eins og aðrir jöklar, hopar nú hratt og undan honum er að koma land sem hefur verið hulið jökli í a.m.k. 500 ár. Loftslagsbreytingarnar eru því farnar að gera rannsóknum á Vatnajökli skráveifu því stysta leiðin í Grímsvötn, um Tungnaárjökul, er ekki lengur fær, a.m.k. eftir að kemur fram á vorið,“ kemur fram í færslunni.

Bent er á að drjúgur hluti þeirrar þekkingar sem aflað hefur verið um Grímsvötn og aðrar eldstöðvar í Vatnajökli er byggður á gögnum sem aflað hefur verið í vorferðum. 

Í yfirstandandi ferð hafa sérfræðingar Jarðvísindastofnunar unnið að íssjármælingum, mælingum á afkomu, rannsóknum á jarðhita í Grímsvötnum og Kverkfjöllum. Einnig er unnið að mælingum á Bárðarbungu, m.a. á þeim breytingum sem orðið hafa samfara auknum jarðhita í Bárðarbungu í kjölfar Holuhraunsgossins mikla 2014-2015. Þá seig askja Bárðarbungu um 65 metra. Veðurstofan hefur á sama tíma unnið að viðhaldi jarðskjálfta- og GPS mæla á jöklinum, gert GPS mælingar og athuganir á gasútstreymi í Bárðarbungu og víðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert