Menntun að láta menn taka til eftir sig

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra telur rétt að menn …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra telur rétt að menn taki til eftir sig sjálfa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnast þetta illvirki á náttúrunni, skemmdarverk sem á ekki að líðast. Það að viðkomandi er samfélagsmiðlastjarna finnst mér líka skipta máli, því að hann er með marga fylgjendur sem sjá þessa hegðun, sem er algerlega óásættanleg,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

Honum blöskraði mjög þegar myndir á netinu sýndu það hvernig ferðamaður nokkur rússneskur hafði valdið skemmdum á jarðvegi skammt frá jarðböðunum við Mývatn við að aka utan vega, þar sem það var óheimilt.

Umhverfisráðherra segir ekki vitlaust að láta spellvirkja sem þessa taka til eftir sig sjálfa þegar upp kemst um svona verknað. Hann tekur vel í þá hugmynd. „Það er mjög eðlilegt og það gera landverðir mjög oft,“ segir Guðmundur.

Hann hefur sjálfur starfað sem landvörður. „Það er ekki skemmtilegasti hluti starfsins að þurfa að standa í þessu en það er mjög algengt að landverðir fái þá sem keyra utanvega til að laga eftir sig,“ segir hann.

„Það er ákveðin menntun í því,“ segir Guðmundur hýr í bragði.

Samfélagsmiðlastjarnan olli usla þegar hann setti myndir á netið af …
Samfélagsmiðlastjarnan olli usla þegar hann setti myndir á netið af upptættum jarðvegi þar sem hann hafði farið um á jeppa. Instagram/sashatikhomirov

Svartir sauðir

„Þessi hegðun er í engu samræmi við þá ímynd ferðamennsku sem ferðaþjónustan hefur verið að byggja upp á þessu landi,“ segir ráðherrann. „Langflestir fylgja reglunum en það eru alltaf svartir sauðir, sem er miður.“

Hann segir verið að mæta auknum straumi ferðamanna með til dæmis fjölgun landvarða. „Það er heilmikið forvarnarstarf í gangi, sem felst í því að landverðir eru í stórauknum mæli úti á vegum, að stöðva ferðamenn til þess að benda þeim á hvað má og hvað ekki,“ segir hann. Landvörðum fari þá fjölgandi.

Um það hver greiði fyrir viðgerðir á spjöllunum segir Guðmundur að það sé nokkuð flókið mál. Landeigendurnir þurftu að borga brúsann í þessu tilfelli. „Ég skil vel að landeigendum finnist það ósanngjarnt, þar sem sektin fer til ríkisins, þannig eru lögin. Það er eitthvað sem ég held að sé æskilegt að skoða, það er, með hvaða hætti megi koma til móts við þá,“ segir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert