Handrið á brúm eru hættuleg

Handriðið sunnanvert á Ölfusábrúnni, þar sem ekið er yfir brúna …
Handriðið sunnanvert á Ölfusábrúnni, þar sem ekið er yfir brúna úr vestri inn í Selfossbæ, þykir varhugavert. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Öryggi er ábótavant varðandi handrið fjölda brúa á þjóðvegum landsins svo þar er hætta á að verði stórslys ef eitthvað bregður út af. Handriðin eru of lág og þau ekki fest saman svo viðunandi sé. Einnig eru festingar handriðanna ekki nógu góðar því þær þurfa að vera steyptar niður. Púðar þurfa sömuleiðis að vera á handriðunum við brúarendana og þeir eftirgefanlegir við ákeyrslu. Þetta segir Ólafur Kr. Guðmundsson, sérfræðingur í umferðaröryggismálum.

Í úttektum sínum á öryggisatriðum í vegakerfinu hefur Ólafur litið til margra þátta og þar haft Evrópustaðla sem einn útgangspunkta.

Ólafur Guðmundsson er sérfræðingur í umferðaröryggismálum.
Ólafur Guðmundsson er sérfræðingur í umferðaröryggismálum. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki þarf að spyrja að leikslokum

„Handriðin eru of lág og stundum ekki rétt fest niður. Í ákveðnum tilvikum eru handriðin nokkuð innan við einn metri á hæð en þau þurfa skv. ákveðnum stöðlum að vera að lágmarki 1,20 metrar á hæð. Styrkurinn í festingum og járninu er ekki nægur þannig að ef bíll sem ekið er á einhverjum hraða að ráði lendir á handriðunum þarf ekki að spyrja að leikslokum,“ sagði Ólafur í samtali við Morgunblaðið.

Í framangreindu sambandi tiltekur Ólafur slys milli jóla og nýárs á síðasta ári, þegar jeppi fór út af brúnni yfir Núpsvötn og féll þar um átta metra niður á jörð, svo þrír fórust. Einnig slys í ágúst 2003 þegar vöruflutningabíll fór í gegnum handrið á Borgarfjarðarbrú eftir að hjólbarði sprakk. Einn lést í því slysi.

„Ég hef rætt þessa grafalvarlegu stöðu við fólk hjá Vegagerðinni, samgönguráðherra og fleiri sem er vandinn alveg ljós. Tafarlausra aðgerða er þörf,“ segir Ólafur sem telur þörf á bráðaaðgerðum við nokkrar brýr. Þar nefnir hann brýrnar yfir Borgarfjörð, Blöndu, Eyjafjarðará, Lagarfljót, jökulsárnar við Vatnajökul, Þjórsárbú og Ölfusárbrú við Selfoss. Ein örfárra brúa, sem séu fullkomlega í lagi hvað framangreint varðar, sé yfir Múlakvísl á Mýrdalssandi, sem tekin var í notkun sumarið 2014.

Aðgerða er þörf við Þjórsárbrú.
Aðgerða er þörf við Þjórsárbrú. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Háskaleg staða á Selfossi

„Yfir Ölfusárbrúna sem er inni í miðjum bæ á Selfossi er mikil umferð – og handriðið er mjög veikburða svo ekki sé meira sagt. Ef bíl væri ekið á það á einhverri ferð myndi hann fara út af og falla tugi metra niður í svelg árinnar, þeirra vatnsmestu á landinu. Mér finnst staðan á Selfossi vera mjög háskaleg og sama á raunar einnig við um Þjórsárbrú sem var tekin í gagnið 2003,“ segir Ólafur Guðmundsson.

Að bæta öryggi á 250 mest eknu brúm landsins kostar ekki minna en 4-5 milljarða króna, segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. Brýrnar eru byggðar samkvæmt viðurkenndum viðmiðunum á þeim tíma sem þær voru byggðar. Í augum uppi liggur að 1.200 brýr verða ekki uppfærðar skv. kröfum dagsins í dag í einu vetfangi,“ segir Bergþóra í samtali við Morgunblaðið.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert