„Þetta er alveg óþolandi“

Sorpið við Vífilsstaðarhlíð.
Sorpið við Vífilsstaðarhlíð. Ljósmynd/Katrín Lilja Sigurðardóttir

„Þetta var alveg rosalega mikið magn. Þetta er náttúrulega bara alveg óþolandi. Því þetta var líka illa frágengið og það var farið að blása uppúr þessu,“ segir Katrín Lilja Sigurðardóttir sem varð vör við gríðarlegt magn sorps sem hafði verið skilið eftir við Vífilsstaðarhlíð í Garðabæ í gær.

„Ég sá þetta í gær, ég var bara að labba með börnunum mínum. Ég fer þarna reglulega og svo sagði einhver að þetta hafi ekki verið þarna í fyrradag, þetta hefur ekki verið þarna lengi,“ segir Katrín.

Katrín vakti athygli á sorpinu á Facebook-síðunni Plokk á Íslandi og vakti færslan mikla reiði á meðal meðlima hópsins.

„Það var einhver sem skrifaði ummæli og hafði fundið úrgang úr kannabisræktun. Ég gæti alveg trúað því að þetta hafi verið svoleiðis. Ég kíkti aðeins ofan í einhverja poka, þeir voru lokaðir en mjög illa frágengnir. Það virtist vera svolítið af pottamold, ég veit ekki hvernig úrgangur úr kannabisræktun lítur út, en þetta var pottamold í bland við einhverskonar heimilissorp. Ótrúlega mikið af þessu,“ segir Katrín.

Katrín segir það vera ólíðandi að fólk skilji eftir rusl úti í náttúrunni og sérstaklega þegar heilu pokarnir af sorpi eru skildir eftir á víðavangi eins og í þessu tilviki, en um er að ræða vinsælan göngustað á Heiðmerkursvæðinu.

„Þetta er algjörlega óþolandi. Því þetta var líka illa frágengið og það var farið að blása uppúr þessu. Ég var brjáluð. Ég var svo reið. Auðvitað ofbauð mér.“

Hefur séð álíka annarsstaðar

Katrín segist ekki hafa fengið tækifæri til að láta yfirvöld vita en að henni skiljist sem svo að Garðabær hafi fylgst með gangi mála í kjölfar færslunnar á Facebook.

„Mér skilst að Garðabær sé að fylgjast með Plokk á Íslandi-hópnum á Facebook og þeir hafa væntanlega séð þetta svo ég setti inn nákvæma staðsetningu. Þetta var það mikið að þetta fær ekki að vera þarna í friði.“

Þá segir Katrín að um alltof mikið magn hafi verið að ræða fyrir hana að taka með sér og fara með á haugana.

„Sérstaklega ekki ef þetta er undan einhverri ólöglegri starfsemi. Þá kærir maður sig ekkert um að taka þetta.“

Katrín segist ekki hafa orðið vör við slíkt magn sorps á þessu svæði en að hún hafi orðið vör við álíka annarsstaðar.

„Ég hef ekki séð þetta á þessu svæði, ekki svona sem fólk er að henda frá sér. Ég hef séð annað eins í Öskuhlíð. Þá einmitt kíkti ég í pokana og fann upplýsingar um eigandann og lét viðkomandi vita og þá voru þetta einhverjir gaurar sem voru að taka greiðslur fyrir að henda á haugana og voru svo bara að fara með þetta eitthvert. Ég held að þetta sé ekki þannig heldur frekar einstaklingar.“

Sorpið við Vífilsstaðarhlíð.
Sorpið við Vífilsstaðarhlíð. Ljósmynd/Katrín Lilja Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert