Sorpið reyndist kannabisúrgangur

Sorpið við Vífilsstaðarhlíð.
Sorpið við Vífilsstaðarhlíð. Ljósmynd/Katrín Lilja Sigurðardóttir

Allt bendir til þess að sorpið sem fannst í umtalsverðu magni við Vífilsstaðarhlíð í gær reyndist vera úrgangur undan kannabisræktun. Þetta staðfestir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Mbl.is greindi frá því í morgun að gangandi vegfarandi hafi fundið töluvert magn af sorpi við Vífilsstaðarhlíð nálægt Heiðmörk í gær og að grunur léki á um að kannabisúrgang væri þar að finna.

Í kjölfarið var haft samband við lögreglu sem ekki hafði verið tilkynnt um málið en eftir nánari athugun áttu grunsemdirnar við rök að styðjast.

„Það hafði ekki verið bókað neitt hjá lögreglu eða tilkynnt til okkar. En við fórum þarna áðan og þessir ruslapokar eru þarna ennþá og það bendir allt til þess að þetta séu einhverskonar afgangar úr kannabisræktun. Við höfðum samband við starfsmenn Garðabæjar og það er komið í ferli að fjarlægja þetta,“ segir Skúli

Vita ekki hver var að verki

Skúli segir rannsókn málsins ekki ná lengra í bili þar sem ekki sé hægt að vita hver var að verki.

„Við vitum ekkert hvaðan þetta er eins og staðan er núna. Þetta er þarna ennþá og við gerðum ráðstafanir svo þetta verði fjarlægt en við vitum ekkert hver var að skila þessu þangað og það eru engar vísbendingar um hver hafi skilið þetta eftir. Við vitum ekki hver var að verki og þannig er bara rannsóknin eins og stendur.

„En við kannski gerum eitthvað meira ef við fáum einhverjar vísbendingar af einhverju tagi en eins og staðan er núna vitum við ekkert hver setti þetta þangað.“

Skúli segist ekki geta sagt til um umfang úrgangsins en bendir á að fyrir utan þá augljósu staðreynd að kannabisræktun sé lögbrot sé það einnig brot á lögreglusamþykktum að skilja eftir rusl og úrgang með þessum hætti.

„Við vorum nú ekkert að telja hvað þetta var úr mörgum pottum, við skoðuðum aðallega bara umfangið og þetta er dálítill haugur, einhverjir tíu pokar held ég en það er ekki verið að setja mikið af mold í hvern poka, það er erfitt að bera það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert