Ekkert minna en það besta

„Ég vissi alltaf að ég ætti eftir að verða einn …
„Ég vissi alltaf að ég ætti eftir að verða einn af þeim bestu. Ég var talinn vera einn af fimm bestu í heiminum á þessum tíma, sem er alveg stórkostlegt. Það var þessi innri trú, þetta var mér ætlað; þetta var mitt verkefni. Að gleðja fólk og gefa því listgrein sem er mjög falleg,“ segir Helgi Tómasson. mbl.is/Ásdís

Helgi Tómasson, goðsögn í lifanda lífi, er í óða önn að kenna tugum ungmenna í stórum sal í leikhúsinu Sadler’s Wells í Lundúnaborg. Blaðamaður fær að vera fluga á vegg og fylgjast með upphitunaræfingum þessara frábæru ballettdansara, en dansflokkur Helga er í algjörum heimsklassa. Píanóleikarinn kemur hlaupandi inn, aðeins of sein og afsakar sig í bak og fyrir. Hún sest við píanóið og tónlistin fyllir salinn. Dansarar af báðum kynjum standa við slár; líkamar þeirra fagurlega skapaðir. Vöðvar eru spenntir á hverjum kálfa og á hverjum handlegg; sviti perlar á ennum. Dansarar eru einbeittir, enda meistarinn að fylgjast með. Helgi gengur teinréttur á milli, réttir úr rist og bregður handleggjum upp fyrir höfuð. Hann virðist yfirvegaður; talar lágt og hreyfingarnar eru mjúkar og áreynslulausar. Helgi svífur létt á milli unga fólksins og augað er vökult. Það er ekki að sjá að hann sé að verða 77 ára á árinu. Hann hefur engu gleymt.

Túlkun í gegnum líkamann

Um kvöldið var tjaldið dregið frá. Fallegu ungu dansararnir frá því fyrr um daginn voru nú komnir í búninga og stigu ekki feilspor. Tjáning og fegurð ballettdansins fyllti salinn undir lifandi tónlist sinfóníuhljómsveitar. Shostakovich Trilogy var á dagskrá en danshöfundur verksins er Alexei Ratmansky. Unun var að horfa og njóta.
Kvöldið eftir fékk blaðamaður aftur að njóta; í það skiptið var endað á verki sem nefnist Björk Ballet; sem eins og nafnið gefur til kynna er saminn við tónlist Bjarkar. Líklega skildu fáir nema undirrituð íslenskuna sem ómaði um salinn. Verkið var ólíkt hinum fyrri; litríkt, kraftmikið og poppað; veisla fyrir augu og eyru.

Í London sýndi dansflokkur Helga afar óvenjuegan ballett sem var …
Í London sýndi dansflokkur Helga afar óvenjuegan ballett sem var gerður við tónlist Bjarkar. Ljósmynd/Erik Tomasson

Óhætt er að segja að það opnaðist nýr heimur hjá blaðamanni sem ekki hefur oft séð ballettsýningar um ævina. Það er einn tilgangurinn að sögn Helga; að kynna ballettinn fyrir nýju fólki. 
„Þetta er það falleg listgrein. Það er margt sem hægt er að túlka í gegnum tónlist og líkamann. Líkaminn getur sagt svo mikið án þess að nota tal. Áhorfendur geta alveg skilið tilfinningar eða hvað er að gerast á milli dansara. Það er þetta sem ég hef alltaf verið svo hrifinn af, þessi túlkun í gegnum líkamann. Þegar hið talaða orð er ekki til staðar fær ímyndunarafl áhorfandans meira frelsi,“ segir Helgi.

Sýningin sem öllu breytti

Við hverfum langt aftur í tímann, til sumarsins 1947. Það má kannski segja að æviferill Helga hafi verið ráðinn strax það sumar. Helgi var á fimmta ári; lítill drengur í Vestmannaeyjum þegar hann sá fyrst ballettdans. Þannig vildi það til að þrír ungir ballettdansarar frá ballettflokki Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn lögðu leið sína til fámennrar og afskekktar eyju norður í hafi en einn dansarinn var íslenskur í föðurætt og ættaður frá Vestmannaeyjum. Aldrei fyrr hafði ballett sést á sviði í Eyjum og ákvað móðir Helga, Dagmar Helgadóttir, og tvíburasystir hennar Laufey, að skella sér á sýninguna, enda stór viðburður í bænum og ekki oft sem slík afþreying var í boði. Í hléi nefnir Laufey við systur sína að Helgi myndi líklega hafa gaman af þessu. Móðirinn hljóp heim og sótti Helga sem sá þá seinni hlutann. Barnið var frá sér numið og mátti ekki heyra tónlist eftir þetta án þess að baða út handleggjum og taka undir sig stökk. Hann vildi líkja eftir þessum flinku dönsurum.
Spurður hvort hann muni eftir sýningunni segist Helgi muna eftir ljósum og litum. „Ég man ekki hvað var dansað en þarna var tónlist sem ég var hrifinn af og það var gaman að sjá dansarana. Það hafði áhrif á mig að sjá að þeir gætu stokkið yfir sviðið; þetta frjálsræði heillaði mig. Móðir mín sagði að í hvert sinn sem ég heyrði tónlist í útvarpinu eftir þetta reyndi ég að leika eftir það sem ég hafði séð á sviðinu; ég stökk þarna um stofuna,“ segir hann og brosir. 
Það má með sanni segja að þetta hafi verið kveikjan að ferlinum. Voru þetta örlög eða tilviljun?
„Það er erfitt að segja. Að mörgu leyti hefur mér alltaf fundist innst inni að mér hafi verið ætlað að fara þessa leið. Hver réð því, veit ég ekki.“

Helgi kennir enn ungum dönsurum og sýnir sjálfir taktana. Þrátt …
Helgi kennir enn ungum dönsurum og sýnir sjálfir taktana. Þrátt fyrir að nálgast 77 ára aldur er Helgi enn sprækur en segist að mestu hættur að stökkva. mbl.is/Ásdís

 Að reyna að ná fullkomnun

Varstu strax mjög metnaðarfullur og ætlaðir þér að ná langt?
„Já, ég trúði því að ég myndi ná langt. Ég hef aldrei efast um það,“ segir hann og bætir við að það hafi alltaf verið gífurleg samkeppni í dansinum, þótt hún hafi breyst í gegnum árin.
„Hún er á annan máta í dag; dansarar í dag þurfa að geta dansað svo marga stíla af dansi, eins og þú sást í gær. Fyrsti ballettinn var í nútímaklassískum stíl, næsti var meira tilfinningaþrunginn og sá þriðji var allt öðruvísi. Það endurspeglar danshöfundana sem eru að semja í dag; það er svo mismunandi hvað þeir vilja fá frá dönsurum og dansarar verða að geta dansað allt frá klassískum ballettum, eins og Svanavatninu, alveg yfir í Björk. Og allt þar á milli.“ 

Helgi er yfir ballettskólanum og nýtur þess að leiðbeina ungum …
Helgi er yfir ballettskólanum og nýtur þess að leiðbeina ungum dönsurum. mbl.is/Ásdís

Varstu sáttur við þinn dans eða varstu alltaf að reyna að bæta þig?
„Ég var alltaf að reyna að gera betur. Þegar maður er að æfa sig er maður fyrir framan spegil og sér sjálfan sig. Það er ekki bara kennarinn sem getur bent manni á heldur sér maður það líka sjálfur hvað þarf að bæta. Svo sér maður líka hina og sér hvað þeir gera betur. Það er alltaf þetta, að reyna að ná fullkomnun. Svo uppgötvar maður með árunum að það er ekki hægt. Þá þarf að læra að sætta sig við það.“

Þú áttir glæstan feril og varst talinn einn besti dansari heims á þessum tíma. Af hverju varst þú einn af þeim bestu?
„Það er góð spurning. Það var mikil vinna á bakvið það. Ég vissi alltaf að ég ætti eftir að verða einn af þeim bestu. Ég var talinn vera einn af fimm bestu í heiminum á þessum tíma, sem er alveg stórkostlegt. Það var þessi innri trú, þetta var mér ætlað; þetta var mitt verkefni. Að gleðja fólk og gefa því listgrein sem er mjög falleg. Ég var talinn mjög músíkalskur. Ég naut þess að dansa í músíkinni. Hún fór alveg í gegnum mig þegar ég var að dansa.“

Myndi aldrei dansa framar

Lentirðu aldrei í meiðslum?
„Jú, þegar ég var aðaldansari hjá New York City-ballettnum, 33 ára gamall. Þá var ég búinn að þjást í bakinu í nokkur ár og þurfti oft að fara í nudd og til kírópraktors. Svo kom það fyrir á sýningu að ég gat ekki hreyft mig. Ég komst af sviðinu en þetta var alveg í lokin, sem betur fer. Þetta var slæmt en ég gat komið mér af sviðinu,“ segir Helgi.
„Þá bjó ég fyrir utan borgina en við höfðum keypt lítið hús í New Jersey og þangað keyrði ég heim úr vinnu á hverjum degi. Þennan dag get ég ekki ímyndað mér hvernig ég komst heim. Ég gat ekki hreyft mig og var með mikla verki. Næsta dag var ég sóttur og farið var með mig á spítala. Ég var þá með mjög slæmt brjósklos. Ég lá þar í viku, tíu daga í strekkingu og þar komu læknar að líta á mig á hverjum degi. Einn læknirinn sagði við mig að ég skyldi vita að ég myndi aldrei dansa aftur. Það var allt sem ég þurfti að heyra og sagði, það verður ekki, ég mun dansa aftur. Ég var ekki búinn. Kannski var þetta þessi íslenska þrjóska, ég veit það ekki. Ég fór svo af spítalanum til Íslands og lá þar í strekkingu í þrjár vikur. Ég lá kyrr og það voru lóð sem héngu niður og toguðu mann, líklega gamaldags lækningaaðferð,“ segir hann og hlær.
„En hann vildi ekki skera mig upp og ég var ánægður með það því það eru bara helmingslíkur á það lagist við það. Þetta gerðist í janúar og ég var kominn á svið að dansa í júlí,“ segir hann. „Læknarnir höfðu rangt fyrir sér,“ segir hann sposkur.

Hleypa fersku lofti inn

Að loknum dansferlinum í New York tók Helgi við sem listrænn stjórnandi San Fransisco-dansflokksins. Þar hefur hann nú stjórnað í 34 ár og gert dansflokkinn að því sem hann er í dag. Í upphafi var dansflokkurinn frekar lítið þekktur og alls ekki með þeim bestu í Bandaríkjunum.
„Nefndin spurði mig hvort ég gæti gert flokkinn að einum af þeim bestu á landsvísu í Bandaríkjunum. Um leið á heimsmælikvarða. Ég hafði aldrei stjórnað neinu fyrirtæki áður en sagði: ég get gert það!“ segir hann og hlær.
Varstu með hugmynd hvernig þú myndir gera það?
„Já. Af því ég var að koma frá Balanchine sem var á þeim tíma einn albesti dansflokkur heims. Ég hafði aldrei hugsað mér að verða stjórnandi þótt ég hefði hugsað um að ég yrði kennari. En eitthvað hafði ég lært og ég vissi hvað það besta var. Og ég vildi ekkert minna en það. Ég þurfti að hugsa hvernig ég færi að því og fór strax að kenna á hverjum degi; sýna dönsurum hvernig sporin ættu að vera. Um leið fór ég að bjóða danshöfundum að skapa nýja balletta, því mér fannst vanta eitthvað nýtt. Það þurfti að opna gluggann og fá frískt loft inn í flokkinn.“

Danhópur San Francisco-ballettsins er einn sá besti í heimi.
Danhópur San Francisco-ballettsins er einn sá besti í heimi. mbl.is/Ásdís

Er ekkert erfitt að vera alltaf ferskur, koma alltaf með eitthvað nýtt?
„Jú, það er það. Á hverju ári í janúar er ég með sýningu til þess að afla fjár fyrir flokkinn. Þetta er mikilvæg sýning. Fólk kemur gjarnan til mín á eftir og segir; þetta er það besta sem þú hefur gert. Þá fer ég alltaf strax að hugsa, hvað get ég gert betra á næsta ári. Ef þetta er best, hvað geri ég næst? Það er alltaf svoleiðis. Og líka með dagskrána sjálfa, ég þarf að hugsa tvö ár fram í tímann.“
Nú sýndir þú mjög sérstakan ballett við tónlist Bjarkar. Hvernig kom það til?
„Við héldum hátíð í fyrra, Unbound Festival, og ég bauð manni að nafni Arthur Pita að koma á hana. Tilgangur hátíðarinnar var að gefa danshöfundum tækifæri til að gera eitthvað sem þeir höfðu aldrei gert áður og ég bauð tólf listamönnum að koma og skapa. Hann kom til mín og sagðist alltaf hafa verið hrifinn af Björk og langaði gífurlega mikið að nota tónlistina hennar, en fengi ekki leyfi til þess. Ég sagði honum að ég skyldi reyna að hjálpa til og hafði samband við kunningja og fjölskyldu heima til að komast í samband við Björk. Það hafðist og ég gat skrifað henni bréf á íslensku og útskýrði tilganginn og sagði henni að hann væri þekktur og hefði skapað mikið hér í London. Hún gaf honum þá leyfi til að nota tónlistina,“ segir Helgi.
„Hann var yfir sig ánægður.“

Þetta er bara ævintýri

Helgi reynir að fara árlega til Íslands, þó það hafi minnkað með árunum. Hann segist tala við bróður sinn og frænku í síma og kíkir reglulega inn á íslensku fréttamiðlana. Blaðamanni þykir merkilegt að maður sem ekki hefur búið á Íslandi í 62 ár skuli enn tala reiprennandi íslensku, þrátt fyrir að tala hana sjaldan. Helgi segist finna fyrir því að hann skorti stundum orð en minnir á að hann hafi jú flutt af landinu fimmtán ára gamall. Hann er auðvitað samt alltaf Íslendingur og hefur gaman af því að hitta landa sína.

Líf Helga snýst um dans og hann er ekki á …
Líf Helga snýst um dans og hann er ekki á leið á eftirlaun. mbl.is/Ásdís

Klassísk spurning, hvenær ætlarðu á eftirlaun?
Helgi skellihlær. „Það er nefnilega það. Það virðist vera mikill áhugi á því að vita hvenær ég ætla að hætta. Ég bara get ekki ímyndað mér að vinna ekki lengur. Ég kann ekki að vera iðjulaus og kannski hræðist ég það að hætta. Vinnan hefur alltaf verið mitt líf. Ég hef unnið frá því ég var drengur í sveit, átta, níu ára gamall.“
Ef þú horfir til baka yfir langan feril, hvað stendur upp úr?
„Ef ég horfi aftur í tímann er alveg stórkostlegt að hugsa til þess að ungur drengur úr Vestmannaeyjum fer í listgrein sem er ekki vel þekkt á Íslandi og verður frægur dansari, einn af þeim albestu, og þar fyrir utan er það lagt í mínar hendur að stjórna einum besta dansflokki í heimi. Þetta er bara ævintýri. Ég fékk tvo ferla, fyrst dansferil þar sem ég næ upp á toppinn og svo sem stjórnandi fyrir dansflokk sem er komin upp á toppinn. Mér var ætlað að gera eitthvað mikið.“

Ítarlegt viðtal við Helga er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert