Yrðlingar heilla við hæsta ból landsins

Yrðlingarnir tveir valda mikilli kátínu.
Yrðlingarnir tveir valda mikilli kátínu. Ljósmynd/Fjallakaffi

Par yrðlinga er mætt í Möðrudal á fjöllum líkt og öll sumur síðastliðinn áratug. Refirnir valda ætíð mikilli kátínu á meðal ferðamanna og eru til friðs gagnvart öðrum dýrum samkvæmt Vilhjálmi Vernharðssyni, eiganda þessa hæsta býlis landsins. 

„Við leitum þá alltaf aðeins uppi því við erum að gera þetta fyrir ferðamanninn. Ferðamaðurinn er náttúrulega að leitast eftir því að sjá tófur og við gerum þetta fyrir það,“ segir Vilhjálmur, sem rekur veitingastaðinn Fjallakaffi. 

„Fólk hefur gaman að því að sjá tófuna og þetta er kannski eini möguleikinn fyrir útlendinga að sjá refi á Íslandi,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir yrðlinga hafa verið við Fjallakaffi á sumrin í um tólf til þrettán ár. Þeir komi ætíð á vorin og skemmti gestum og gangandi yfir sumarið en þegar þeir vaxa úr grasi með haustinu haldi þeir áfram ferð sinni. 

Annar yrðlinganna á stangli.
Annar yrðlinganna á stangli. Ljósmynd/Fjallakaffi

Eru alla jafna til friðs

Þá segir Vilhjálmur yrðlingana vera til friðs gagnvart mönnum og dýrum yfir sumarið en að það sé ekki svo að þeir séu gæfir við menn og að hægt sé að klappa þeim eða annað slíkt, enda sé um villt dýr að ræða.

„Þeir eru nú til friðs. Við náttúrulega ölum þá aðeins og gefum þeim að borða og það er ekkert mál yfir sumartímann og gerum þá svona aðeins gæfa. En þetta eru náttúrulega bara villt dýr og þegar fer að líða á haustið eru þeir ekki eins öruggir gagnvart öðrum dýrum en þeir eru allt í lagi yfir sumarið.“

Vilhjálmur segir yrðlingana í ár vera tvær tófur og að þeir séu einir síns liðs eins og síðustu ár, enda séu fullvaxta refir engin lömb að leika við.

Auk Fjallakaffis hefur Vilhjálmur einnig Fjalladýrð á sínum snærum og býður upp á gistingu og rekur tjaldsvæði við hæsta byggða ból á Íslandi, en Möðrudalur er yfir 400 metrum yfir sjávarmáli.

Vilhjálmur segir yrðlingana vissulega vera mikið aðdráttarafl en að það sé ótalmargt annað sem heilli ferðamenn við norðurhálendið og þann öræfaanda sem ráði þar ríkjum.

„Yrðlingarnir eru bara hluti af því sem fólk skoðar þegar það kemur. Hérna er margt um að vera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert