Ekið upp Laugaveginn í fyrsta sinn síðan 1932

Búið er að mála hring á gatnamót Laugavegar og Frakkastígs.
Búið er að mála hring á gatnamót Laugavegar og Frakkastígs. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Á morgun, föstudag, verður gerð söguleg breyting á akstursstefnu bíla um Laugaveg. Fram á haust munu bílar aka upp Laugaveginn, þ.e. til austurs, frá Klapparstíg upp að Frakkastíg.

Einstefna niður Laugaveg var tekin upp haustið 1932 og því verður nú ekið upp Laugaveg í fyrsta sinn í 87 ár.

Fram kemur í frétt á heimasíðu Reykjavíkurborgar að eins og áður verði ekið niður Laugaveg frá Hlemmi, en nú má aðeins aka niður að Frakkastíg og þaðan er einstefna niður á Hverfisgötu. Fram til þessa hafa þeir sem óku niður Laugaveginn þurft að beygja niður Vatnsstíg þar sem göngugötusvæðið byrjaði. Í sumar er göngugötusvæðið á Laugavegi minnkað frá fyrra ári og nær nú aðeins upp að Klapparstíg.

Með breytingu á akstursstefnu um hluta Laugavegar sé verið að jafna umferðarflæðið um miðborgina og draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar. Betra sé að beina umferð frá Laugavegi niður Frakkastíg að Hverfisgötu en að fá hana upp Klapparstíg að Skólavörðustíg. Minni hætta sé á að ökumenn aki í ógáti inn á göngusvæðið. Til að vekja athygli á breytingunni hefur verið málaður litríkur hringur á gatnamót Laugavegar og Frakkastígs. sisi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert