Félag fréttamanna fordæmir handtöku Assange

Félag fréttamanna hjá RÚV fordæmir handtöku Assange.
Félag fréttamanna hjá RÚV fordæmir handtöku Assange. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félag fréttamanna RÚV fordæmir harðlega handtöku Julians Assange í sendiráði Ekvadors. Félagið mótmælir einnig ákvörðun innanríkisráðherra Bretlands um að samþykkja beiðni bandarískra stjórnvalda um framsal Assange. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Assange var handtekinn í sendiráði Ekvador í apríl.
Assange var handtekinn í sendiráði Ekvador í apríl. AFP

„Bandaríkin hafa ákært Assange fyrir landráð. Ákærurnar varða meintar ólögmætar tilraunir Assange til að verða sér úti um og birta gögn er varða þjóðaröryggi og með því brjóta lög um njósnastarfsemi. Assange, Chelsea Manning og Wikileaks uppljóstruðu meðal annars um árásir Bandaríkjahers á saklausa borgara og áttu þær upplýsingar mikið erindi við almenning.

Framganga Bandaríkjanna í þessu máli er ógn við frelsi fjölmiðla. Hætt er við því að mannréttindi Assange verði þar fyrir borð borin þar sem stjórnvöld ganga fram af mikilli og ómaklegri hörku í máli hans. Með ákæru bandarískra stjórnvalda gegn Assange og hugsanlegu framsali Breta á honum til Bandaríkjanna er einnig vegið gróflega að heimildavernd fjölmiðla. Vernd sem hefur verið kveðið skýrt á um í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu að sé meðal grunnskilyrða fyrir tjáningarfrelsi fjölmiðla. Án slíkrar verndar kynnu heimildarmenn að forðast það að veita fjölmiðlum upplýsingar í málum er varða hagsmuni almennings. Af því kann að leiða að grafið verði undan eftirlitshlutverki fjölmiðla og dregið verði úr möguleikum þeirra til að miðla nákvæmum og áreiðanlegum upplýsingum.

Lýðræði þrífst ekki án sjálfstæðra fjölmiðla. Sjálfstæðir fjölmiðlar þrífast vart ef stjórnvöld ofsækja uppljóstrara sem koma upplýsingum á framfæri.

Félag fréttamanna skorar á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því að Assange verði ekki framseldur til Bandaríkjanna. Alþingi samþykkti eftir hrun þingsályktun um að Ísland ætti að skapa sér sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Lengi var lítið um efndir en nú hafa verið stigin skref í átt að því að standa við ályktunina þótt lengra megi og verði að ganga. Félagið skorar á stjórnvöld að starfa í anda þingsályktunarinnar frá 16. júní 2010, innan lands jafnt sem utan, og beita sér fyrir tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi,“ segir í tilkynningu Félags fréttamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert