Kossaflóð við búðarborðið í Norðurfirði

Árný Björk Björnsdóttir, verslunarstjóri í Verzlunarfjelagi Árneshrepps.
Árný Björk Björnsdóttir, verslunarstjóri í Verzlunarfjelagi Árneshrepps. mbl.is/Sunna

Kossar flögra um og fylla búðina í Árneshreppi á Ströndum. Við búðarborðið stendur verslunarstjórinn ungi, Árný Björk Björnsdóttir frá bænum Melum, og tekur á móti fyrstu kúnnunum þetta sumarið með geislandi brosi. Yfir hana rignir hamingjuóskum og hún svarar að bragði: „Já, sömuleiðis!“  

Það er vissulega tilefni til að brosa og fagna. Verslunin, sem nú hefur fengið nafnið Verzlunarfjelag Árneshrepps, var lokuð í allan vetur. Hún var svo opnuð á hvítasunnudag og verður opin alla daga vikunnar í sumar. Sveitungar og aðrir sem eiga viðdvöl í hreppnum um þessar mundir hafa margir hverjir þegar litið við, keypt hitt og þetta sem þá vanhagar um og svo gert það allra mikilvægasta: Spjallað um daginn og veginn.

Árný Björk afgreiðir Skúla Björn Ásgeirsson í búðinni.
Árný Björk afgreiðir Skúla Björn Ásgeirsson í búðinni. mbl.is/Sunna

Því það er ómissandi að spjalla í búðinni í Norðurfirði; hjarta sveitarinnar sem nú streymir á ný líf um. „Búðin hefur stóru hlutverki að gegna í sveitinni sem samkomustaður, nokkurs konar félagsmiðstöð, og þannig viljum við hafa það áfram,“ segir Árný.

Gegnt henni við höfnina er svo veitingastaðurinn Kaffi Norðurfjörður sem Sara Jónsdóttir og Lovísa Bryngeirsdóttir reka yfir sumartímann. Þaðan leggur út í sólskinið, sem nóg hefur verið af síðustu daga, ilminn af nýju bakkelsi og fiskisúpunni vinsælu. Við höfnina eru strandveiðibátarnir farnir að skríða í land einn af öðrum eftir blíðviðrisdag á gjöfulum miðunum. Franskir ferðamenn sitja við eitt borðið á kaffihúsinu og njóta útsýnisins yfir hafið og hin sérstæðu fjöll Strandanna, sem sum eru gróin upp á hæstu tinda, útsýni sem er óumdeilanlega á heimsmælikvarða og hefur lokkað þá til sín hálfa leið yfir hnöttinn.

Útsýnið frá Kaffi Norðurfirði er á heimsmælikvarða. Urðartindur skartar sínu …
Útsýnið frá Kaffi Norðurfirði er á heimsmælikvarða. Urðartindur skartar sínu fegursta í veðurblíðunni. Ljósmynd/Thomas Elguezabal

„Sjáðu fiskibátana,“ segir ungur Bandaríkjamaður hraðmæltur við ferðafélaga sinn, augljóslega hrifinn, er þeir tylla sér við annað borð við gluggann. Þeir fylgjast gaumgæfilega með hafnarstjóranum, Elínu Öglu Briem, taka á móti feng dagsins frá sjómönnunum sem varð þegar upp var staðið 13 tonn. Elín vippar sér fimlega upp í lyftarann, klædd rauðum kjól, og færir til ker barmafull af fiski, ísar og skráir. Sjómennirnir strjúka svitann af enninu, grípa svo í kaffibolla eða ölkrús á kaffihúsinu. Sælir með sitt.

Það er því ekki að ástæðulausu sem svæðið er stundum kallað „miðbærinn“ eða „bryggjuhverfið“ segir Árný og hlær. Hún tekur svo við að afgreiða systurson sinn, Skúla Björn Ásgeirsson, sem er kominn til að versla fyrir ömmu sína, Bjarnheiði Fossdal á Melum. Og svo appelsínur fyrir sjálfan sig, hvorki meira né minna en 2,2 kíló af þeim.

Þó að Árný sé nýtekin við starfinu er hún flestum hnútum kunnug í búðinni. Þar vann hún sem unglingur í fjögur sumur. Nú er það hún sem stjórnar, sér um að panta vörur og afgreiða. Frá því að hún starfaði þar síðast hefur hún m.a. lokið háskólanámi í ferðamálafræðum og frönsku. Nú er hún að bæta við sig námi og er hálfnuð með meistaranám í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum. 

Elín Agla Briem, hafnarstjóri í Norðurfirði, ísar fisk.
Elín Agla Briem, hafnarstjóri í Norðurfirði, ísar fisk. mbl.is/Sunna

Það var ekki fyrr en nú um miðjan maí sem Árný var ráðin verslunarstjóri og því þurfti að hafa hraðar hendur við undirbúning. Hún segir þó allt hafa gengið nokkuð vel enda margir sem voru boðnir og búnir að aðstoða svo hægt yrði að opna sem fyrst. „Við þurftum að koma húsnæðinu í stand, panta allar vörur, hér var enginn lager, og sitt hvað fleira.“

Töluvert af matvöru og hreinlætisvörum er þegar á boðstólum. En Árný ætlar ekki að láta staðar numið þar. Hún hyggst einnig bjóða upp á gas, bílavörur og handverk, svo dæmi séu tekin, helst úr heimabyggð. „Nú þarf ég að fara að spyrjast fyrir í sveitinni hvort einhverjir hafi setið við prjóna í vetur,“ segir hún.

138 hluthafar eru í Verzlunarfjelagi Árneshrepps sem stofnað var í vetur. Stefnt var að því að safna tveimur milljónum króna í hlutafé en þær urðu um fimm sem kom skemmtilega á óvart. Hluthafarnir og fleiri hafa verið boðnir og búnir að leggja hönd á plóg síðustu vikur. Fyrir það er Árný óendanlega þakklát. „Þetta er samvinnuverkefni. Öllum þykir vænt um að hér sé búð, þetta húsnæði hefur líka svo mikla sögu. Hingað komu til dæmis systur í gær sem sögðu mér frá því að önnur þeirra hefði fæðst á hæðinni hér fyrir ofan þegar pabbi hennar var kaupfélagsstjóri. Fleiri sögur í þessum dúr heyri ég. Búðin hefur auðvitað breyst í áranna rás en svo margir eiga góðar minningar héðan.“

Sjálf á Árný minningar þaðan frá því hún var barn. „Það var alltaf svo sérstakt að koma hingað á jólunum. Það var alveg föst hefð að fara í búðina og versla mikið.“

Vinsæll samkvæmisleikur í búðinni í Norðurfirði er að endurgera fræga …
Vinsæll samkvæmisleikur í búðinni í Norðurfirði er að endurgera fræga ljósmynd af Ingólfi Guðjónssyni á Eyri, Axel Thorarensen á Gjögri og Kristni Jónssyni frá Dröngum sem tekin var fyrir margt löngu og hangir uppi á vegg í versluninni.

Svo er það bekkurinn. Hinn frægi bekkur. Hann hefur verið í búðinni í um hálfa öld, lengst af undir glugganum við dyrnar. Nú hefur Árný flutt hann innar í verslunina, á svæði þar sem hún hyggst koma upp notalegu horni með stólum, borðum og bókum. „Hva, hvar er bekkurinn?“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti sem rekur inn nefið á leið á hreppsskrifstofuna sem er í sama húsi. Hún er ekki sú fyrsta sem hefur orð á þessu. Árný hlær. „Það taka allir eftir því að búið sé að færa bekkinn. Allir hafa skoðun á því. Við sjáum hvað setur,“ segir hún kankvís.

Hvar sem bekknum verður fundinn staður er enn hægt að leika vinsælan samkvæmisleik sem er að endurgera fræga ljósmynd af Ingólfi Guðjónssyni á Eyri, Axel Thorarensen á Gjögri og Kristni Jónssyni frá Dröngum sem tekin var fyrir margt löngu og hangir uppi á vegg í versluninni.

Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir tekur á sprett fyrir utan búðina í …
Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir tekur á sprett fyrir utan búðina í Norðurfirði. Með í för er heimalningurinn Pési, hundurinn Kubbur og vinur hennar, Thomas Elguezabal. mbl.is/Sunna

Fyrir utan dyrnar á búðinni stendur Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir, tíu ára, og með henni er hundurinn Kubbur og heimalningurinn Pési, báðir ættaðir úr Steinstúni. Pési heillar alla sem á vegi hans verða og nú jarmar hann að Árnýju áður en hann stekkur af stað á eftir Jóhönnu sem þreytist ekki á að leika við hann.

Vörurnar eru flestar fluttar að sunnan en Árný segir að vilji sé til þess að stilla verði á nauðsynjavöru í hóf eftir því sem frekast er unnt. Af bökunarvörum selst t.d. alltaf vel, enda enn bakað af miklum móð á flestum bæjum.

Fleiri viðskiptavinir eru mættir. Fleiri kossum er smellt á Árnýju. Hún tekur við enn einum skammti af heillaóskum. Og svo er spjallað. „Sumir koma hingað bara til að spjalla,“ segir hún. „Fá fréttir af bæjunum, úr sauðburði til dæmis eða heyskapnum. Það er notalegt og skemmtilegt og ég tek því fagnandi.“  

Árný, Elín Agla og Bjarnheiður Fossdal spjalla við búðarborðið.
Árný, Elín Agla og Bjarnheiður Fossdal spjalla við búðarborðið. mbl.is/Sunna

Árný mun halda áfram námi sínu fyrir sunnan í haust. Stefnt er að því að halda búðinni opinni í vetur en þá mun einhver annar taka við verslunarstjórninni. „Um háveturinn verður afgreiðslutíminn skertur en það er algjörlega markmiðið að hér verði rekin búð allt árið um kring.“

En í sumar verður það hin glaðlega Árný sem heilsar gestum Verzlunarfjelags Árneshrepps. Hvort sem þeir eru komnir til að kaupa í matinn eða aðeins til að spjalla. „Það er ótrúlega gaman að vera komin hingað í Norðurfjörð aftur, ég var hér svo mikið sem barn og unglingur. Það er gott að vera komin í bryggjuhverfið, vera hluti af þessu lífi hér. Ég hlakka sannarlega til sumarsins. Mér finnst ótrúlega gott að vera komin heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert