Spá yfir 20 stigum í dag

Þoka hefur verið viðloðandi landið í nótt en búast má við að henni létti víðast hvar þegar líður á morguninn. Enn er mikið hæðarsvæði á milli Íslands og Grænlands og líklegt að hitastigið nái yfir 20 gráður í innsveitum á Vesturlandi og uppsveitum Suðurlands í dag en austan til er áfram nokkuð skýjað og heldur svalara í veðri. 

Ekki er útlit fyrir úrkomu á vestanverðu landinu næstu daga og því áfram brýnt að fara varlega með eld vegna hættu á gróðureldum, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáð er norðlægri átt, 5-13, hvassast á annesjum austanlands en snýst smám saman í suðaustlæga átt, 5-10 syðst. Hvassari norðlæg átt austan- og suðaustanlands á morgun. Víða þokuloft vestan til í fyrstu, annars skýjað með köflum eða bjartviðri en dálítil súld eða rigning norðan- og austanlands. Hiti 7 til 14 stig norðaustan til, en annars 14 til 23 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Norðaustan 5-10 m/s, en 10-15 suðaustan til á landinu. Bjart með köflum, en skýjað austanlands. Hiti frá 7 stigum með austurströndinni, en allt að 20 stig í uppsveitum á Suður- og Vesturlandi. 

Á laugardag:
Austan 5-10 m/s. Dálítil rigning suðaustanlands. Bjart með köflum á vesturhelmingi landsins, en líkur á skúrum síðdegis. Hiti frá 8 stigum austast, upp í 19 stig á Vesturlandi. 

Á sunnudag:
Hæg austlæg átt og víða skýjað, en bjart veður suðvestan til á landinu. Hiti 12 til 18 stig, en svalara austanlands og á annesjum fyrir norðan. 

Á mánudag (lýðveldisdaginn):
Norðan 3-8 og dálítil rigning með köflum, en léttskýjað vestan til á landinu. Hiti 10 til 18 stig yfir daginn. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir austlæg átt og dálitil rigning með köflum, en yfirleitt þurrt norðanlands. Hiti breytist lítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert